Síldarvinnslan breytir öryggismálum sínum

Um síðustu mánaðarmót urðu þáttaskil í öryggismálum hjá Síldarvinnslunni, en þá fór Guðjón B. Magnússon, öryggisstjóri, á eftirlaun. Tekin var ákvörðun um að breyta fyrirkomulagi öryggismála með þeim hætti að leggja niður stöðu öryggisstjóra og auka ábyrgð rekstrarstjóra hverrar deildar á öryggismálum.


„Rekstarstjórarnir verða í raun öryggisstjórar sinna deilda og hafa þar yfirumsjón með innleiðingu og umbótum á öryggisferlinu“, segir Sigurður Ólafsson, verkefnastjóri, sem hefur unnið að undirbúningi breytinganna í samtali um málið á vefsíðu Síldarvinnslunnar.

„Við höfum unnið mikla grunnvinnu undanfarin ár í því að efla öryggismenningu fyrirtækisins undir stjórn Guðjóns. Við höfum m.a. áhættugreint allar verksmiðjur og farið í gegnum ítarlegar úttektir hjá Vinnueftirlitinu. Við höfum gert okkar besta til að útrýma hættum í vinnuumhverfinu með breytingum á búnaði og vinnuaðstöðu þar sem slíku hefur verið við komið og þar hefur oft verið um talsverðar fjárfestingar að ræða, en þetta hefur klárlega skilað sér í öruggari vinnustöðum."

Þá kemur fram að einnig hafa verið settar skýrar grunnreglur um öryggi og gefnar út verklagsreglur fyrir öll vinnusvæði sem eiga að lágmarka áhættu við vinnuna.

"Á þessum tímamótum ætlum við að yfirfara þetta allt saman, en svo verður það á ábyrgð hverrar einingar að viðhalda ferlinu og tryggja að sífellt sé unnið að því að tryggja að starfsfólk skilji öryggis og verklagsreglur, fylgi þeim og taki svo þátt í að bæta þær jafnt og þétt." segir Sigurður.

"Það er því síður en svo einhver lægð framundan í öryggismálum þótt Guðjón sé sestur í steininn helga, enda þarf stöðuga vinnu í þessu til að árangur náist. Það voru fleiri atvik á síðasta ári en við hefðum viljað og þótt flest þeirra væru minniháttar, þá erum við líka enn að sjá alvarleg slys þrátt fyrir alla vinnuna sem við höfum lagt í þetta, sem sýnir hvað þetta er snúið. Ég vil annars nýta tækifærið og þakka Guðjóni fyrir sérlega gott samstarf og óska honum ánægjulegra eftirlaunaára."

 

Mynd: Guadalupe Luiz/SVN

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.