Orkumálinn 2024

Sigurður Ingi: Geta hraðpróf hjálpað útihátíðum?

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir ríkisstjórnina hafa verið einhuga um þær takmarkanir sem ákveðnar voru á fundi hennar á Egilsstöðum í dag til að hemja útbreiðslu Covid-19 veirunnar. Hann kveðst vilja skoða möguleikann á að Íslendingar nýti hraðpróf til að skima fyrir veirunni í auknu mæli.

„Við erum stödd á mjög góðum stað varðandi bólusetningar og erum meðal þeirra þjóða sem eru fremstar í þeim.

Hins vegar eru smit meðal bólusettra vonbrigði og við vitum ekki hvað þau þýða. Þess vegna grípum við til ákveðinna, tímabundinna aðgerða til að tempra smit þannig þau verði ekki eins mörg og öruggt sé að við ráðum við þau. Þannig getum við lært af þeirri reynslu sem við sköpum og aðrar þjóðir fylgjast með,“ sagði Sigurður Ingi að loknum ríkisstjórnarfundinum í dag.

Fyrir fundinn var talað um að ágreiningur væri innan ríkisstjórnarinnar um nýjar samkomutakmarkanir. „Fundurinn var málefnalegur og góður. Menn töluðu hreint út. Við komum út eins og eitt lið eins og við höfum ávallt gert. Það er samstaða um niðurstöðuna.“

Mest hefur verið talað um ágreining milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins en minna um afstöðu Framsóknarflokksins gagnvart hertum reglum. „Við vinnum í að vera málamiðlarar eins og miðjuflokkar eru gjarnan.

Sjálfur hef ég talað fyrir því að skynsamlegt sé að nota hraðpróf meira og betur, til dæmis inn í framíðina. Það verður skoðað, meðal annars í sambandi við útihátíðir. Samkvæmt reglunum er möguleiki að sækja um undanþágur gagnvart ákveðnum skilyrðum. Við ræddum það aðeins á þessum fundi.“

Í kjördæmi Sigurðar Inga, Suðurkjördæmi, eru stórar hátíðir áformaðar um verslunarmannahelgina, Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og Unglingalandsmót á Selfossi. „Það er möguleiki á að sækja um undanþágu að uppfylltum skilyrðum og ég veit að slík samtal hefur verið í gangi.

Það er hins vegar erfitt að sjá slíkt fyrir sér á sama tíma og smit verða til við sérstakar aðstæður, þar sem fólk skemmtir sér á nóttunni. En án efa verður leitað leiða til að halda þessar hátíðir ef það er hægt. Hraðprófið er eitt af því sem komið hefur þar til tals. Við sjáum hvað næstu sólarhringar bera í skauti sér hvað þetta varðar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.