Seyðfirðingar tilbúnir að greiða veggjöld til að flýta fyrir göngum

seydisfjordur.jpgSeyðfirðingar eru tilbúnir að greiða veggjöld verði það til að flýta fyrir gerð jarðgangna undir Fjarðarheiði. Vegurinn yfir heiðina hefur verið skráður ófær nær samfleytt frá áramótum.

 

Þetta kemur fram í bókun sem bæjarstjórn Seyðisfjarðar sendi frá sér í gærkvöldi. Þar segir að ekkert byggðarlag á Íslandi búi vði jafn miklar truflanir og einangrun og Seyðisfjörður.

Máli sínu til stuðnings bendir bæjarstjórnin á að frá 10. nóvember hafi Fjarðarheiðin aðeins verið skráð átta sinnum greðifær í kortum Vegagerðarinnar. Dögum saman hafi verði snjóþekja og hálka á heiðinni eða hún með öllu ófær.

„Á þeim 12 sólarhringum sem liðnir eru frá áramótum hefur Fjarðarheiðin verið skráð ófær alls 11 daga, að hluta eða öllu leyti. Þetta segir allt sem segja þarf um það óöryggi og truflanir á daglegu lífi Seyðfirðinga sem þessum erfiða fjallvegi fylgja.“

Sínu alvarlegust er sú ógn sem tíðar lokanir Fjarðarheiðar eru fyrir öryggisþjónustu á heilbrigðissviðinu og ekki þarf að fjölyrða um þá truflun sem verður á aðföngum og atvinnustarfsemi við þessar aðstæður. Það er því miður aðeins tímaspursmál hvenær sú staða kemur upp að Fjarðarheiði hindri aðgengi að hátækniheilbrigðisþjónustu og flugvelli, þegar mest liggur við.“

Bæjarstjórnin brýnir því fyrir yfirvöldum að „binda endi á áratuga bið Seyðfirðinga“ eftir að Fjarðarheiðargöng verði sett á dagskrá. Seyðfirðingar séu tilbúnir að leggja sitt af mörkum til að svo megi verða.

„Seyðfirðingar lýsa sig reiðubúna til viðræðna um að veggjöld verði liður í fjármögnun Fjarðarheiðarganga, geti það orðið til að flýta fyrir ákvörðun um gerð þeirra.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.