Seyðfirðingar safna sjálfir fyrir álkaplaverksmiðju

seyis.jpgHópur áhugamanna á Seyðisfirði hefur hrundið af stað söfnun fyrir stofnfé álkaplaverksmiðju. Seyðfirðingar eru óánægðir með framtaksleysi Framtakssjóðs Íslands sem ekki vildi styðja við uppbyggingu verksmiðjunnar.

 

Í byrjun vikunnar var stofnaður reikningur í Arionbanka sem annast hlutafjárútboð fyrir verksmiðjuna. Forsvarsmenn hópsins stefna á að safna um 2-300 milljónum króna til að vinna verkefninu brautargengi.

Adolf Guðmundsson, héraðsdómslögmaður á Seyðisfirði og formaður LÍÚ, er tilsjónarmaður reikningsins en af öðrum framamönnum hópsins má nefna Arnbjörgu Sveinsdóttur, forseta bæjarstjórnar, Cecil Haraldsson, varaforseta bæjarstjórnar og Jón Halldór Guðmundsson, sem lengi sat í bæjarstjórn. Hópurinn kallar sig Framtaksfélag Seyðisfjarðar. Framlögin verða endurgreidd ef ekkert verður af verksmiðjunni á Seyðisfirði.

Seyðfirðingar hafa unnið að stofnun verksmiðjunnar í um fjögur ár þar sem Sigfinnur Mikaelsson hefur verið aðaldrifkrafturinn. Í lok seinustu viku kom neikvætt svar frá Framtakssjóði Íslands, sem er í eigu lífeyrissjóðanna, um þátttöku í fjármögnun verkefnisins. Þar með virtist útséð um að af verksmiðjunni yrði á Seyðisfirði en ekki mun vera loku fyrir það skotið að henni verði komið upp á Reyðarfirði.

Stjórn Atvinnuþróunarsjóðs Austurlands samþykkti á fundi sínum á föstudag ályktun þar sem ákvörðum Framtakssjóðsins er fordæmd. Þar segir:

„Röksemdir stjórnar sjóðsins fyrir þessari ákvörðun ganga þvert á hagkvæmniathuganir sem unnar hafa verið vegna verkefnisins. Ljóst er af öllu að megin ástæða afstöðu sjóðsins ræðst af staðsetningu verksmiðjunnar, en ekki fjárhagslegum forsendum.

Stjórn Atvinnuþróunarsjóðsins lýsir jafnframt yfir vandlætingu sinni á því hvernig þeir sem fara með fé almennings í lífeyrissjóðum landsins leyfa sér að koma fram við jaðarbyggðir á Íslandi eins og endurspeglast í ákvörðun FSÍ.

Þá skorar stjórn Atvinnuþróunarsjóðsins á Ríkisstjórn Íslands og Samband Íslenskra Sveitarfélaga, að taka strax til umfjöllunar stöðu jaðarbyggða á Íslandi áður en það verður um seinan. Jafnframt óskar sjóðurinn eftir því við stjórn SSA og þingmenn kjördæmisins að fylgja áliti stjórnar sjóðsins eftir.“

Nánar er hægt að lesa um Framtaksfélagið á Facebook síðu þess.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.