Orkumálinn 2024

Seyðisfjörður: Hættir í bæjarstjórn og gagnrýnir vinnubrögð meirihluta

Örvar Jóhannsson, varabæjarfulltrúi Framsóknarflokksins á Seyðisfirði, hefur sagt af sér öllum trúnaðarstörfum í bæjarkerfinu vegna ágreinings við aðra í meirihlutanum. Hann gagnrýnir meðal annars að bæjarstjórn sé ekki annað en afgreiðslustofnun. Oddviti listans og bæjarstjóri segir mál til lykta leidd með sama hætti á Seyðisfirði og annars staðar.

„Það er ekkert eitt sem veldur þessu. Ég hef gert athugasemdir við ýmislegt í ákvarðanatöku í stjórnsýslunni, til dæmis að ekki séu fengnir fagaðilar til að vera með í ráðum,“ segir Örvar í samtali við Austurfrétt.

Hann birti í gær yfirlýsingu á bæjarritinu Tölvuskjánum, sem hann ritstýrir, þar sem hann tilkynnti ákvörðun sína og rakti forsendur hennar.

Vantar aðkomu fagaðila

Hann segir ástæðuna trúnaðarbrest og gagnrýnir vinnubrögð sem viðhöfð hafi verið í fjölda mála á kjörtímabilinu svo sem langan langan viðbragðstíma í málefnum stofnana fyrr á kjörtímabilinu í eldfimum aðstæðum sem þó hafi verið leystar fyrir rest.

Þá talar Örvar um „ólýðræðislegt og ógagnsætt ferli“ við ýmsar ákvarðanir einkum í húsnæðismálum stofnana auk einstefnu og áhugaleysi í atvinnumálum. Aðspurður um einstök dæmi nefnir hann húsnæði Seyðisfjarðarskóla.

„Þar vantaði mikið upp á að fengnir væru fagaðilar. Tíminn sem leið frá ákvörðun til framkvæmdar var stuttur og verkið því illa undirbúið.“

Fjarvarmaveita gerði útslagið

Í yfirlýsingunni segir Örvar að útslagið hafi verið afgreiðsla á tillögu sem hann lagði fram á bæjarstjórnarfundi fyrir mánuði um lokun fjarvarmaveitunnar í bænum. Tillögu hans um að koma á fót starfshóp um orkumál var vísað til bæjarráðs til fullnaðarafgreiðslu en hún gerði ráð fyrir að bæjarstjóri, í samráði við formann atvinnu- og framtíðarmálanefnd, myndu útfæra hlutverk hópsins og skipa í hópinn.

Bæjarráð ákvað hins vegar að fela nefndinni að skila bæjarstjórn skýrslu með samanburði á þeim lausnum sem í boði eru.

Búið að ákveða málin áður en þau koma í bæjarstjórn?

Örvar lýkur tilkynningunni á að lýsa þeirri skoðun sinni að ákvarðanir séu þegar teknar áður en málin komi fyrir bæjarstjórnina. „Meirihlutinn virðist hafa það viðhorf að hlutverk bæjarstjórnar sé aðeins að afgreiða það sem bæjarráð hefur samþykkt og að fulltrúar í bæjarstjórn skuli á bæjarstjórnarfundum helst bara sitja, þegja og rétta upp hönd á réttum stöðum.“

Í samtali við Austurfrétt sagðist Örvar hafa fengið ákúrur frá öðrum bæjarfulltrúum um að ekki sé hægt að ræða við hann á vitrænum nótum þar sem hann komi með of margar hugmyndir að lausnum. Hann upplifi viðmótið þannig að ekki sé vilji til að ræða hugmyndirnar á fundum bæjarstjórnar, ákvarðanirnar liggi þegar fyrir. „Ég er ekki viðkvæmur fyrir því að hugmyndir mínar komi ekki framkvæmda en mér finnst ekki rétt að ýta þeim út af borðinu án umræðu.“

Aðspurður segir Örvar að gagnrýni hans beinist að meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í heild og að vissu leyti flokksfélögum hans. Hann ítrekar þó að gagnrýnin hafi ekkert með flokkinn á landsvísu. Örvar er í framboði í Norðausturkjördæmi og er formaður Framsóknarfélagsins á Seyðisfirði. „Ég er ekki á leiðinni úr flokknum.“

Ekki öðruvísi stjórnkerfi

„Okkur þykir þessi ákvörðun miður sem og þessi framsetning á henni. Annars er lítið um þetta að segja,“ segir Vilhjálmur Jónsson, bæjarstjóri og oddviti B-listans.

Hann er ósammála gagnrýni Örvars á stjórnkerfi bæjarins. „Mál eru send fastanefndum til undirbúnings og umræðu. Þaðan koma þau til bæjarstjórnar þar sem þau eru leidd til niðurstöðu. Ég hef ekki orðið var við að þetta sé með öðrum hætti hjá okkur en öðrum.“

Hann segir málefni skólans hafa verið rædd ítarlega í skólasamfélaginu með foreldrum og fræðslunefnd, sem hafði reyndan ráðgjafa sér við hlið. Skólasamfélagið hafi síðan undirbúið tillögurnar.

Í fyrstu útgáfu fréttarinnar var sagt að Örvar væri bæjarfulltrúi. Hið rétta er að hann er varabæjarfulltrúi. Það hefur verið leiðrétt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.