Seyðisfjörður: Minnihlutinn vildi ráða Arnbjörgu og gagnrýnir ráðningarferlið

Minnihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar gagnrýnir vinnubrögð meirihluta Seyðisfjarðalistans við ráðningu nýs bæjarstjóra sem staðfest var á bæjarstjórnarfundi í gær vegna skorts á gögnum. Forseti bæjarstjórnar segir minnihlutann hafa fengið sömu gögn og meirihlutann. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks gerðu tillögu um ráðningu fyrrverandi forseta bæjarstjórnar.

Bæjarstjórn staðfesti í gær ráðningu Aðalheiðar Borgþórsdóttur í starf bæjarstjóra. Auglýst var eftir bæjarstjóra í byrjun júní en Seyðisfjarðarlistinn vann hreinan meirihluta í bæjarstjórninni í sveitarstjórnarkosningunum með að ná tveimur fulltrúum af framboðunum sem nú eru í meirihluta.

Auglýsingin er það fyrsta sem gagnrýnt er í yfirlýsingu frá í dag, sem er undirrituð af þeim bæjarfulltrúum minnihlutans sem sátu fundinn. Þar segir að auglýsing hafi hvorki komið til umfjöllunar í bæjarstjórn né bæjarráði og minnihlutanum því ekki gefist væri á að koma að gerð auglýsingarinnar.

Hildur Þórisdóttir, forseti bæjarstjórnar og oddviti Seyðisfjarðarlistans, segir að í sparnaðarskyni hafi verið ákveðið að semja auglýsinguna í heimahögunum. Engin skylda sé að hafa minnihlutann með í ferlinu en meirihlutinn talið rétt að láta reyna á þá lýðræðislegu leið.

Tólf umsóknir bárust áður en tilskilinn tímafrestur rann út en þrjár voru dregnar til baka. Að lokinni verðkönnun var samið við ráðningafyrirtækið Hagvang um að vera innan handar við nánara mat á umsækjendum.

Minnihlutinn með í viðtölum

Eftir mat Hagvangs, meðal annars persónuleikapróf, voru teknar tvær umferðir af viðtölum við þá umsækjendur sem þóttu koma til greina. Fulltrúar Seyðisfjarðarlista og Sjálfstæðisflokks sátu fyrri umferð viðtalanna en fulltrúi Framsóknarflokksins aðeins það fyrra. Í yfirlýsingu minnihlutans er talað um að talað hafi verið við þá fulltrúa sem bæjarfulltrúar Seyðisfjarðarlistans og Hagvangs hafi talið hæfasta.

Að viðtölum loknum var boðað til aukafundar í bæjarstjórn í gær. Fyrir fundinum lá fyrir fundinum auglýsing um starfið, umsóknargögn umsækjenda, handrit viðtala og rökstuðningur meirihluta bæjarstjórnar sem byggði á grunni vinnu Hagvangs.

Kröfur um aðgang að frekari gögnum

Í upphafi fundar í gær lagði Eygló Björg Jóhannsdóttir, fulltrúi Framsóknarflokks, fram tillögu um að ráðningu yrði frestað þar sem ekki lægju fyrir fullnægjandi gögn. Tillagan var felld af meirihlutanum en afstaða Eyglóar ítrekuð í bókun sem Oddný Björk Daníelsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokks lagði fram síðar á fundinum sem og í yfirlýsingunni frá í dag.

Þar segir að bæjarfulltrúar hafi ekki getað tekið vel upplýsta ákvörðun um málið, einkum ekki þeir sem ekki sátu allt ráðningarferlið, því gögn hafi skort. Bent er á að meðal annars vanti skýrslu og/eða greinargerð um hæfni umsækjenda, fundargerðir og minnispunkta frá ráðgjafa Hagvangs, punkta eða greinargerðir varðandi samtöl við meðmælendur sem og niðurstöður persónuleikaprófa umsækjenda.

Niðurstaða minnihlutans sé því að ekki sé sýnt að umsækjendur hafi fengið sanngjarna málsmeðferð. Auk þess hafi upplýsingar sem unnar hafi verið fyrir kaupstaðinn og greiddar af honum ekki legið fyrir þótt kjörnir fulltrúar ættu rétt á þeim. Því verði leitað til ráðuneyti sveitarstjórnarmála eftir áliti á málsmeðferð og úrskurði um að gang að öllum gögnum málsins.

Trúnaðargögn ráðgjafa

Hildur segir minnihlutann kalla eftir gögnum sem Hagvangur telji trúnaðargögn, svo sem persónuleikaprófið og minnispunkta ráðgjafa úr viðtölum. Hjá skrifstofunni sé vinnuregla að láta ekki þessi gögn að hendi, enn síður eftir gildistöku nýrra persónuverndarlaga.

„Við höfum heldur ekki séð þessi gögn eins og persónuleikaprófið. Minnihlutinn hefur haft sömu upplýsingar og við,“ segir Hildur.

Vildu ráða fyrrum forseta bæjarstjórnar

Ekki var þó allt búið með gagnrýninni á málsmeðferðina. Eftir að meirihlutinn hafði borið upp tillögu um ráðningu Aðalheiðar lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu um að ráða Arnbjörgu Sveinsdóttur sem bæjarstjóra með vísan í reynslu hennar sem gerði hana að hæfasta umsækjandanum að hennar mati.

Arnbjörg var meðal bæjarfulltrúa en hún var þingmaður Sjálfstæðisflokksins í 14 ár og forseti síðustu bæjarstjórnar. Hún sat í fjórða sæti listans í vor. Listinn var leiddur af tengdasyni hennar Elvari Snæ Kristjánssyni en hann sat ekki fundinn í gær vegna vanhæfis.

Að loknu fundarhléi voru greidd atkvæði um báðar tillögurnar. Tillagan um Aðalheiði var samþykkt með fjórum atkvæðum meirihluta gegn tveimur mótatkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins en fulltrúi Framsóknarflokks sat hjá. Tillagan um Arnbjörgu var felld með fjórum atkvæðum meirihlutans gegn þremur atkvæðum minnihluta.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar