Orkumálinn 2024

Sextíu ár frá fyrsta síldarfarminum

Haldið var upp á þann áfanga í Neskaupstað í gær að sextíu ár eru liðin frá því að tekið var á móti fyrsta síldarfarminum í verksmiðju Síldarvinnslunnar. Um leið var minnst þeirra sem látist hafa við störf hjá fyrirtækinu.

Það var síldarskipið Gullfaxi sem kom með fyrsta farminn í verksmiðjuna að morgni 17. júlí árið 1958. Bygging verksmiðjunnar átti sér nokkurn aðdraganda sem Smári Geirsson, sagnfræðingur, rakti í samsætinu í gær.

Togaraútgerð hafði átt erfitt uppdráttar í Neskaupstað nánast allan sjötta áratuginn og horfðu Norðfirðingar til síldveiða sem voru mjög ábatasamar. Við upphaf síldveiða eystra á þessum tíma var aðeins ein alvöru síldarverksmiðja á Austfjörðum og var hún staðsett á Seyðisfirði.

Niðurstaðan í Neskaupstað varð sú að stofna nýtt fyrirtæki, Síldarvinnsluna, og var það formlega gert 11. desember 1957. Til stóð að safna einni milljón í hlutafé en með herkjum tókst að ná hálfri milljón. Með það var farið af stað í byggingu síldarverksmiðju.

Allt gekk hratt fyrir sig. Teikningar að verksmiðjunni lágu fyrir í mars 1958, byrjað var að byggja í apríl og tekið á móti fyrsta farminum hinn 17. júlí eins og fyrr greinir. Verksmiðjan var þá ekki fullbúin en vinnsluhæf og rétt þótt að láta reyna á tækin.

Vélarnar voru keyptar notaðar úr verksmiðju á Dagverðareyri í Eyjafirði. Gufuketillinn, sem stendur enn á sínum stað, kom úr togaranum Venusi sem lá í Hafnarfjarðarhöfn. Hann var dreginn austur af síldarskipinu Helga Helgasyni VE. Engir kranar voru í þá daga og þurfti því að koma katlinum fyrst upp í fjöru og þaðan upp á götu þaðan sem honum var velt á sinn stað með tiltækum tógum og blakkarbúnaði

Verksmiðjuhúsið var alls tæpir 1000 fermetrar, framleiðslugeta verksmiðjunnar 330 tonn á sólarhring og hráefnisþrærnar gátu rúmað 1360 tonn og þótti verksmiðjan öll stór í sniðum.

Gleðidagurinn, þegar tekið var á móti fyrsta síldarfarminum, breyttist hins vegar í sorgardag þegar veggur í hráefnisþró brast með þeim afleiðingum að ungur maður, Þorsteinn Jónsson, beið bana.

Við athöfnina í gær var tilkynnt að á grunni gömlu síldarverksmiðjunnar yrði gerður minningarreitur þar sem minnst verður þeirra tólf starfsmanna sem látið hafa lífið við störf hjá fyrirtækinu. Flestir þeirra, sjö, fórust í snjóflóðunum sem féllu á verksmiðjuna 20. desember 1974. Efnt verður til samkeppni um gerð minningarreitsins og mun hún verða auglýst sérstaklega á næstunni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.