Sex sagt upp hjá Alcoa Fjarðaáli

Sex starfsmönnum var sagt upp hjá Alcoa Fjarðaáli í gær vegna hagræðingar. Óvissa á álmörkuðum hefur kallað á aðhaldsaðgerðir hjá álverinu á Reyðarfirði.

„Rekstrarumhverfið í áliðnaði er erfitt og við höfum verið í margvíslegum aðgerðum til að koma á móts við það. Eitt af því sem við höfum þurft að gera var að leggja niður sex störf í gær,“ segir Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Fjarðáls.

Hún segir störfin koma víðs vegar að úr starfseminni. „Það er alltaf erfitt að fara í uppsagnir, þær eru síðasta úrræðið sem við viljum grípa til og við sjáum á eftir góðu samstarfsfólki.“

Ókyrrð á álmörkuðum

Gustað hefur um alþjóðlega álmarkaði að undanförnu úr ýmsum áttum. Álverð á heimsmarkaði féll um 15% árið 2018, nánast alfarið um mitt ár vegna viðskiptaátaka Kína og Bandaríkjanna. Kínverjar framleiddu hins vegar 20% meira ál en árið áður sem leitt hefur til offramboðs.

Handtaka fjármálastjóra kínverska tæknifyrirtækisins Huawei olli enn frekari óvissu á mörkuðum. Vegna hennar héldu fjárfestar að sér höndum á álmörkuðum af ótta við minnkandi eftirspurn.

Hráefni, einkum súrál hafa hækkað í verði síðustu misseri. Norsk Hydro lokaði súrálsverksmiðju í Brasilíu síðasta haust en verulega var dregið úr starfsemi hennar eftir að báxítmengunar varð vart í nágrenninu eftir mikil flóð í febrúar.

Súrálsverð lagaðist aftur í lok árs og telja sérfræðingar ástæðu til bjartsýni í ár vegna hækkandi álverðs með aukinni eftirspurn, auk þess sem leyst verði úr deilum í alþjóðaviðskiptum.

Ekki fleiri uppsagnir í bígerð

Forsvarsmenn Alcoa í Bandríkjunum mótmæltu þegar þarlend stjórnvöld hækkuðu tolla á ál í sumar. Slíkt var talið leiða til kostnaðarauka upp á 100 milljónir dollara, andvirði 12 milljarða íslenskra króna. Félagið lækkaði afkomuspá sína og hlutabréf í því lækkuðu í verði.

„Ástandið á álmörkuðum hefur verið erfitt um nokkurt skeið. Sumar þeirra aðgerða sem gripið var til í sumar hafa haft áhrif á súrálsverð,“ segir Dagmar.

Fleiri uppsagnir eru hins vegar ekki fyrirhugaðar hjá Fjarðaáli nú. „Þegar ástandið er svona er öllum steinum velt við en það eru ekki fyrirhugaðar fleiri uppsagnir.“

Eftir sem áður vinna um 550 manns hjá Alcoa Fjarðáli.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar