Sjö Austfirðingar fá listamannalaun

Sjö listamenn, sem ýmist búa eða eru aldir upp á Austurlandi, eru meðal þeirra sem fá úthlutað listamannalaunum árið 2019.

Gyrðir Elíasson hlýtur 12 mánaða laun úr launasjóði rithöfunda. Gyrðir er Austfirðingur að ætt og uppruna en hann hefur fyrir löngu skipað sér í röð fremstu rithöfunda landsins.

Fellbæingurinn Jónas Reynir Gunnarsson fær þriggja mánaða laun úr sama sjóði en hann sendi frá sér í fyrra sína aðra skáldsögu, Krossfiska.

Af þeim listamönnum sem búa á Austurlandi fær Þór Vigfússon, myndlistarmaður á Djúpavogi, mest, níu mánaða laun úr launasjóði myndlistarmanna. Úr sama sjóði fær Tinna Guðmundsdóttir á Seyðisfirði fær þriggja mánaða laun úr sama sjóði.

Tveir Austfirðingar eru hlutar af hópum sem fá úthlutanir úr launasjóði sviðslistafólks. Birna Pétursdóttir frá Egilsstöðum er í hópnum Umskiptingar sem fá úthlutað tíu mánuðum.

Fellbæingurinn Pétur Ármannsson er hluti af tveimur hópum, annars vegar Sálufélögum sem fá fimm mánaða laun og hins vegar tvíeykinu Lið fyrir lið sem fær fjögurra mánaða laun.

Annar Fellbæingur, Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir fær þriggja mánaða laun úr launasjóði tónskálda.

Í fyrstu útgáfu fréttarinnar gleymdist nafn Ingibjargar. Beðist er velvirðingar á því.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar