Sex ára fangelsi fyrir lífshættulega árás með eldhúshnífum

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt Sigurð Sigurðsson í sex ára fangelsi fyrir lífshættulega og heiftúðlega árás á annan mann á heimili hans í Neskaupstað í júlí. Sigurður stakk manninn margsinnis með tveimur eldhúshnífum sem hann hafði með sér úr íbúð sinni.

Árásin átti sér stað á heimili brotaþola, rétt fyrir miðnætti þann 10. júlí síðastliðinn. Samkvæmt frásögn þess sem fyrir árásinni varð hafði hann verið að spila tölvuleik er hann varð þess áskynja að Sigurður var kominn inn í íbúð hans.

Sigurður hefði í engu svarað hvað hann vildi, en otað að honum hníf úr af stuttu færi. Brotaþoli varði sig með að grípa um þá hönd sem á hnífnum hélt en skipti þá engum togum að Sigurður lagði til hans öðrum hníf sem hann hélt á í hinni hendinni.

Í dómnum kemur fram að Sigurður hafi stungið hinn manninn margsinnis, meðal annars í háls, brjóstkassa, kvið, síðu, bak, axlir og handleggi. Níu stungugöt voru á skyrtu mannsins. Hann reyndi fyrst að verja sig en náði loks að stjaka við Sigurði og komast undan yfir að næsta húsi.

Handtekinn blóðugur

Nágranni hans var að taka á sig náðir er hann varð var við að bankað var á dyrnar. Hann sá nágranna sinn fyrir utan sem hrundi inn fyrir er opnað var. Nágranninn taldi brotaþola hafa verið moldölvaðan og því ýtt honum út fyrir, en brugðist við og hringt á neyðarlínu er hann sá að úr honum fossaði blóð. Þá sá hann Sigurð á sveimi fyrir utan með hnífana í höndunum. Nágranninn bar að hann hefði komið upp að húsinu, virst vera að leita að fórnarlambi sínu og meðal annars bankað létt í glugga með hníf. Hann hefði síðan gengið frá húsinu og látið hnífana falla í jörðina.

Lögregluþjónar komu skjótt á vettvang og hlúðu að þeim sem fyrir árásinni varð, en hann hafði skriðið í skjól bakvið bíl í bílastæði nágranna síns. Þá var lögreglan fljót að finna Sigurð sem var á gangi í bænum, með blóð á fötum sínum og höndum.

Játaði ekki vegna minnisleysis

Strax í upphafi rannsóknar málsins kom í ljós að Sigurður hafði hótað kærustu fórnarlambsins og honum grófum líkamsmeiðingum, þar með talið lífláti. Hótanirnar komu í kjölfar þess að upp úr nánu sambandi Sigurðar við konuna slitnaði í byrjun árs og hún tók saman við fórnarlambið. Í dóminum kemur fram að Sigurður hafði upplifað mikla vanlíðan í kjölfar sambandsslitanna og leitað sér aðstoðar vegna hennar.

Fyrir dómi viðurkenndi Sigurður að gögn málsins bentu til þess að hann hefði verið að verki. Hann ætti hins vegar bágt með að trúa því og myndi ekkert eftir atburðarásinni. Hann hefði munað eftir sér heima hjá sér að horfa á kvikmyndir og drekka bjór, milli þess sem hann hefði stöku sinnum farið út til að reykja. Hann viðurkenndi að hafa sent hótanir til konunnar, sem og móður hennar, í ölvunarástandi fyrr á árinu en aldrei verið með áform um að vinna neinum mein.

Sigurður sagðist muna eftir blóðugum á höndunum að sleppa hnífunum, því næst þegar lögreglan hefði handtekið hann og því næst þegar hann hefði verið kominn í fangaklefa. Hann neitaði sök vegna minnisleysis. Í dóminum kemur fram að Sigurður hafi verið í annarlegu ástandi, en ekki áberandi ölvaður þegar hann var handtekinn.

Strax um nóttina tók lögregla eftir því að tvo hnífa vantaði í eldhúshnífasett í íbúð Sigurðar. Hnífarnir, hvor með um 10 sm. löngu blaði, fundust skammt frá vettvangi árásarinnar. DNA sýni á bæði þeim og fötum Sigurðar reyndust úr fórnarlambinu.

Í lífshættu eftir mikla blæðingu

Úr skýrslum lækna, sem lagðar voru fram fyrir dómi, má ráða að ekkert þeirra stungusára sem fórnarlambið hlaut hafi eitt og sér verið lífshættulegt. Alvarlegust eru þó talin stungan í hálsinn, sem var grunn en var millimetrum frá því að vera lífshættuleg og síðan stunga í brjóstkassa sem olli blæðingu.

Fórnarlambinu blæddi hins vegar mikið. Áætlað er að það hafi misst um helming blóðs síns og var því í í yfirvofandi lífshættu. Læknarnir telja hendingu hafa ráðið því að ekki fór verr og miklu hafa skipt fyrir afdrif mannsins að hafa verið nærri sjúkrahúsi þegar árásin átti sér stað.

Blóðferlafræðingar sem báru vitni fyrir dóminum töldu blóðferla á vettvangi styðja við lýsingu fórnarlambsins. Þá tóku sérfræðingar undir að atburðarásin hefði verið hröð. Dómurinn telur lýsingu þess greinargóða, auk þess sem hún sé studd framburði vitna og rannsóknargögnum. Þar með sé það sannað að Sigurður hafi farið inn á heimili mannsins og stungið hans margsinnis með tveimur hnífum. Sigurður hafi staðfest eign sína á hnífunum og fatnaði með blóði mannsins, en ekki getað skýrt hvernig það var til komið né véfengt rannsóknargögn.

Heiftúðleg árás

Dómurinn segir árásina hafa verið heiftúðlega og lífshættulega og það hafi Sigurði átt að vera ljóst á þeirri stundu sem hann framdi hana. Brotavilji hans hafi verið einbeittir því hann hafi gengið 1,5 km leið frá heimili sínu með hnífana tvo að heimili fórnarlambsins. Fumlaus viðbrögð nærstaddra, þeirra sem á eftir komu og heppni hafi ráðið því að ekki fór verr.

Við ákvörðun refsingarinnar var litið til þess að Sigurður hefði sýnt iðrun og ekki verið áður verið sakfelldur fyrir ofbeldisbrot. Frá sex ára fangelsisdómi dregst gæsluvarðhald sem hann hefur setið í frá 11. júlí.

Þá var Sigurður dæmdur til að greiða þeim sem fyrir árásinni varð tæpar tvær milljónir króna í miska- og skaðabætur, en maðurinn glímir við áfall eftir árásina . Kröfu þess um bætur vegna þess að hafa ekki getað stundað atvinnu um tíma og vegna tjóns á munum var neitað vegna ófullnægjandi ganga. Sigurði var hins vegar gert að greiða 5,7 milljónir í sakarkostnað auk þess sem hnífarnir tveir voru gerðir uppteknir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.