Settu sér markmið um útgáfuna í ársbyrjun

„Jórunn Viðar var ótrúlegur listamaður, mikill frumkvöðull, bæði frumlegt tónskáld og mikils metinn píanóleikari,“ segir Erla Dóra Vogler mezzosópran, en hún og Eva Þyri Hilmarsdóttir píanóleikari voru að gefa út geisladiskinn „Jórunn Viðar – Söngvar“.


Jórunn hefði orðið 100 ára þann 7. desember næstkomandi. „Þann dag munum við stöllur halda útgáfutónleika með pompi og pragt í Hannesarholti í Reykjavík. Þar með mun aldarminning Jórunnar, sem árið okkar hefur að stórum hluta snúist um, ná hámarki. Við settum okkur það markmið í byrjun árs 2018 að halda upp á aldarafmæli hennar með útgáfu geisladisks og tónleikahaldi henni til heiðurs, og til að kynna þann fjölbreytta arf söngljóða sem hún eftirlét þjóðinni,“ segir Erla Dóra. Uppselt er á þá tónleika en miðasala á 
aukaútgáfutónleikana 8. desember kl. 17:00 fer fram á Tix.is.

Hefur alltaf hrifist af Jórunni

„Jórunn var afar merkileg kona. Hún var fyrsta íslenska konan með próf í tónsmíðum og eina konan í Tónskáldafélagi Íslands í um tvo áratugi. Hún var fyrst Íslendinga til að semja kvikmyndatónlist, samdi fyrsta íslenska ballettinn og fyrsta íslenska píanókonsertinn í fullri lengd og síðast en ekki síst samdi Jórunn fjölda kammerverka, kórverka og ótal sönglög sem mörg hver eru afar vinsæl meðal þjóðarinnar.

Ég hef alltaf hrifist af henni og fyrsta lagið sem ég söng eftir hana snemma í námi, eins og líklega svo margir aðrir, var Únglíngurinn í skóginum. Það heillaði mig upp úr skónum. Það var erfitt að læra það, öðruvísi en allt annað, svo frjálst og leyfði fullt af leik, og parturinn fyrir píanóið var svo einstakur. Þessi skoðun óx bara eftir því sem ég lærði meira í tónlist og söng fleiri lög eftir Jórunni, og ég held að aðdáun mín á því hvernig Jórunni tókst að klæða orð og ljóðlínur í búning sem fær þau til að lifa, haldi áfram að vaxa út í hið óendanlega.


Ef ég á að taka saman í nokkrum punktum hvað heillar mig við tónlist Jórunnar þá myndi ég segja a) hve góða tilfinningu hún hefur fyrir orðum og fegurð íslenskrar tungu, b) einstakir hæfileikar til að pakka orðum og setningum inn í tónaumgjörð þannig að töfrar leysist úr læðingi, c) píanópartarnir og samspil þeirra við sönglínuna og b) frjálst form og hugrekki til að gera það sem henni fannst að þjónaði best hverju ljóði."

 

Mögnuð tilfinning

Á geisladiskinum og tónleikadagskránni eru verk sem sjaldan eða aldrei hafa verið flutt áður, eins og „Únglíngurinn í skóginum II“ og „Ung stúlka“, í bland við mörg hennar frægustu lög og þjóðlagaútsetningar. Upptakan og útgáfa geisladisksins sem út kemur 7. desember hefur verið unnin í samstarfi við Lovísu Fjeldsted, dóttur Jórunnar, sem hefur hvatt okkur áfram og aðstoðað okkur á margvíslegan hátt, en útgáfan er styrkt af samfélagssjóði Landsbankans og hljómdiskasjóði FÍT.“

Hvernig var að fá geisladiskinn í hendurnar eftir alla vinnuna? „Þetta er auðvitað klisja, en það er auðvitað bara mögnuð tilfinning og ég myndi ekki vilja hafa neitt öðruvísi. Ætli hljóðupptökurnar sjálfar hafi ekki verið minnsta vinnan þrátt fyrir að mikill undirbúningur lægi þar að baki. Við tókum lögin 26 sem eru á disknum upp á tveimur kvöldum í Hannesarholti, eftir lokun kaffihússins á efri hæðinni, og hljóðmeistararnir okkar Bjarni Rúnar Bjarnason og Georg Magnússon, ásamt sérlegum ráðgjafa og vinkonu Þórunni Guðmundsdóttur, voru algjörir snillingar – yndisleg öll saman og fyrsta flokks fagmenn, þannig að upptökurnar gengu vonum framar.


Mér finnst við líka hafa náð því á band sem er svo mikilvægt í lögum Jórunnar: mismunandi litir, glettni og leikur. Fullkominn söngur eða píanóleikur hefur ekkert að segja ef þetta vantar, ekki síst í lögunum hennar, því hún gefur manni svo mörg tækifæri til að túlka og lifa sinn inn í lögin að það er glæpur að nýta sér það ekki."


Erla Dóra og Þyri hafa það sem af er ári haldið ferna tónleika, eina í Berlín og tvenna á vegum KÍTÓN (félags kvenna í tónlist) í Iðnó og Hofi, og eina í Tónlistarmiðstöð Austurlands. Þær verða svo á tónleikadagskrá Tónalands/Landsbyggðartónleika árið 2019.
Geisladiskurinn verður fáanlegur eftir útgáfutónleikana, frá og með 8. desember; í 12 Tónum, Pennanum Eymundsson, Farmers Market, Rammagerðinni, Húsi Handanna á Egilsstöðum og hönnunarversluninni Kistu í Hofi, Akureyri.

 

Fínlegt, íslenskt og fallegt fyrir augað

Álfheiður Erla Guðmundsdóttir ljósmyndari, hönnuður og söngkona hannaði hulstrið og tók myndirnar en Bjarni Rúnar Bjarnason og Georg Magnússon voru hljóðmeistarar.

„Við erum hæstánægðar með útlitið. Álfheiður Erla Guðmundsdóttir á þar heiður skilinn. Einu hugmyndirnar sem við settum fram var að við vildum að útlitið væri fíngert, íslenskt og fallegt fyrir augað, og þetta allt uppfyllti hún með þvílíkum glæsibrag. Íslensku jurtirnar sem hún leggur til grundvallar eru heillandi og hafa sterka tilvísun í þann þjóðlega tónlistararf sem Jórunn sótti sér gjarnan efnivið í.

Ljósmyndirnar sem hún tók af okkur Evu Þyri á fallegum haustdegi í Reykjavík koma líka vel út við hlið gamalla mynda af Jórunni úr eigu dóttur hennar. Pabbi (Philip Vogler) var síðan svo yndislegur að þýða allan texta yfir á ensku þannig að geisladiskurinn gæti líka fylgt ferðamönnum út í heim eða verið notaður sem auglýsing fyrir okkur og lög Jórunnar utan landsteinanna. En já, þetta er yndislegt og við erum bara verulega stoltar af útkomunni."

Hér má hlusta á hljóðritun af Þjóðlagi úr Álfhamri eftir Jórunni og hér má fylgjast með verkefinu á Facebook

Jórunn Viðar söngvar 1000

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.