Setti Íslandsmet í 600 metra hlaupi

Björg Gunnlaugsdóttir, UÍA, setti um síðustu helgi Íslandsmet í 600 metra hlaupi 12 ára stúlkna innanhúss á Silfurleikum ÍR. Björg hlaut alls þrenn gullverðlaun á mótinu.

Björg, sem æfir með Hetti, hljóp á tímanum 1:43,87 mín. Björg bætti eldra met, sem sett var árið 2013, um 6 hundraðshluta úr sekúndu.

Björg kom einnig heim með tvenn önnur gullverðlaun. Hún sigraði í 60 metra hlaupi stúlkna á tímanum 8,66 sek. og í þrístökki með að stökkva 9,97 metra.

Einn annar keppandi var frá UÍA, Friðbjörn Árni Sigurðarson. Hann vann til bronsverðlauna í flokki 14 ára pilta þar sem hann kastaði 10,94 metra.

Silfurleikarnir eru eitt stærsta frjálsíþróttamótið sem haldið er hérlendis en þar keppa 17 ár og yngri. Mótið fékk nafn sitt árið 2006 til að fagna því að þá var hálf öld liðin frá því að Austfirðingurinn Vilhjálmur Einarsson fékk silfurverðlaun í þrístökki á Ólympíuleikunum en hann keppti um tíma fyrir ÍR.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar