Senda Húnvetningum samúðarkveðjur

Forsvarsfólk austfirskra sveitarstjórna hefur í morgun sent íbúum Húnabyggðar samúðarkveðjur vegna þeirra hörmulegu atburða sem urðu á Blönduósi aðfaranótt sunnudags.

Þar eru tveir látnir og þriðji á sjúkrahúsi eftir að maður réðist inn í heimahús þar með skotvopni.

Bæjarráð Fjarðabyggðar sendi frá fundi sínum í morgun hugheilar samúðarkveðjur til sveitarstjórnar og íbúa Húnabyggðar vegna atburðanna.

„Hugur okkar er með ykkur öllum og sérstaklega þeim sem eiga hvað mest um sárt að binda vegna þessa. Megi allar góðar vættir fylgja ykkur og styrkja vegna þessa. Hlýjar kveðjur að austan,“ segir í bókun ráðsins.

Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, sendi Húnvetningum kveðjur á Facebook-síðu sinni. „Hugur minn er hjá íbúum og kærum vinum á Blönduósi. Þið eigið hug minn allan.“

Hið sama gerði Jóhann Frímann Þórhallsson, oddviti Fljótsdalshrepps. „Ég sendi kærleika og ljós til allra og um allt og til þeirra sem sérstaklega þurfa á að halda. Langar að biðja ykkur að gera það sama. Hugur minn er hjá fjölskyldum og íbúum Blönduóss.“

Mynd: Wikimedia Commons/Einar Páll Svavarsson/Hiticeland.com

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.