Segir vinnumenninguna á Austurlandi hættulega

Launamunur kynjanna virðist hvergi meiri á landinu en Austurlandi. Vinnumenningin á Austurlandi ýtir undir hann og skapar valdaójafnvægi inni á heimilunum. 

Launamunurinn er mestur í Fjarðabyggð, heildartekjur kvenna þar eru 54% af heildartekjum karla. Á landsvísu eru laun kvenna 72% af launum karla.

Ekki er tekið tillits til vinnutíma en hann skýrir ekki þennan mikla mun. Þá viðheldur vinnumenningin launamuninum.

„Við getum gert ýmislegt til að útskýra eða afsaka þennan mun en myndin verður ekkert fallegri við það,“ segir Tinna K. Halldórsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú sem kynnti tölurnar á ráðstefnunni Auður Austurlands sem Tenglanet austfirskra kvenna stóð fyrir á fimmtudag.

Meðaltekjur í Fjarðabyggð eru þær hæstu á landinu en í flestum öðrum sveitarfélögum fjórðungsins eru þær undir meðaltali. „Myndin er pínu dapurleg, tekjur austfirskra kvenna eru langt undir landsmeðaltali kvenna.

Það hefur verið sagt að konurnar séu að fá svo góðar tekjur inn á heimilin. Ef við horfum á þetta blákalt þá dregur þetta úr fjárhagslegu sjálfstæði. Að vera háður einhverjum eru ekki æskileg valdahlutföll neins staðar.

Það er líka sagt að karlar á Austurlandi vinni svo mikið. Menningin þeirra að vinna frá 8-18 er stórhættulegt. Hvað er leikskólinn opinn lengi? Það gefur auga leið að þetta skerðir tekjumöguleika kvenna.“

Ekki er nóg með að mikill munur sé á launum kynjanna heldur eru karlar töluvert fleiri heldur en konurnar, svo munar eins og öllum íbúum Vopnafjarðar í fjórðungnum. Hlutfallslega munar mestu á Reyðarfirði og Breiðdalsvík en jafnast er á Egilsstöðum. „Við vitum öll hvernig samfélög endurnýja sig.“

Tinna hefur einnig gert viðhorfsrannsóknir meðal kvenna sem flutt hafa af svæðinu. Fábreytni í atvinnu fælir þær frá. Þær telja tækifæri karla góð en sjá færri tækifæri fyrir sig. „Ef maður fær ekki vinnu hér fer maður annað,“ sagði Tinna.

Tinna vitnaði í niðurstöður úr viðhorfskönnun meðal fyrrverandi nemenda í Menntaskólanum á Egilsstöðum. „Strákarnir kíkja í burtu en koma aftur. Stelpurnar stefna í burtu og sjá ekkert annað.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar