Segir heimastjórn Seyðisfjarðar hafa brugðist hlutverki sínu

Hildur Þórisdóttir, oddviti Austurlistans í sveitarstjórn Múlaþings, telur að heimastjórn Seyðisfjarðar hafi brugðist því meginhlutverki sínu að vera rödd íbúa bæjarins með áskorun sinni til Matvælastofnunnar um að flýta útgáfu leyfis vegna fiskeldis í firðinum.

Þessu lýsti Hildur yfir á síðasta fundi sveitarstjórnar fyrr í vikunni en töluverð óánægja hefur verið meðal margra íbúa vegna þeirrar bókunar heimastjórnarinnar um miðjan október enda hafi legið fyrir lengi að stór meirihluti þeirra eru mótfallnir slíkum iðnaði samkvæmt könnun sem gerð var síðasta vetur. Einn af þeim þremur heimastjórnarmönnum sem upphaflega samþykktu bókun þessa dró þó samþykkt sína til baka skömmu síðar og lét bóka það sérstaklega á síðasta fundi heimastjórnar fyrir rúmri viku. Sagðist hann ekki hafa verið beittur neinum þrýstingi heldur hafi verið misráðið að þrýsta á hlut sem sé í lögformlegu ferli.

Eitt hlutverk heimastjórna er einmitt að vera auka áhrif og raddir fólks í hverjum bæjarkjarna fyrir sig auk þess að vera vettvangur félagasamtaka, atvinnulífs og sveitarfélagsins sjálfs. Því hlutverki hafi heimastjórn Seyðisfjarðar ekki valdið í þessu tilfelli að mati Hildar.

„Heimastjórnir eiga að vera rödd heimamanni en ég tel að heimastjórn Seyðisfjarðar hafi brugðist því hlutverki sínu. [Áður] hafði ég lýst því yfir að mér finndist óeðlilegt að haft yrði samband við Mast [Matvælastofnun] og jafnvel kjánalegt í ljósi aðstæðna. Svarið sem við fengum frá þeim var líka að þeim finndist þetta ekki faglegt. Í hverri einustu viku dynja yfir okkur hryllilegar fréttir af slysasleppingum og svo lúsaétnum laxi í Tálknafirði að það jaðrar ekki við dýraníð heldur er dýraníð. Það er búið að slátra mörg þúsund tonnum af laxi í Tálknafirði sem er núna að fara í gæludýrafóður. Þetta er ekki góður bissness! Hvorki fyrir umhverfið, samfélögin eða fyrir þessa hluthafa sem eru að stórtapa á sínum fjárfestingum. Laxeldi í pokum ofan í sjó er algerlega galinn iðnaður og Seyðfirðingar vilja ekki laxeldi. Þeir hafa lýst því yfir á allan mögulegan hátt og það ekkert breyst þó svo að bolfiskvinnslan á Seyðisfirði eigi bráðum að fara að loka. Við sjáum til með það því nú eru breyttar aðstæður hjá Vísi í Grindavík. Ég skil ekki afstöðu heimastjórnarinnar.“

Lélegt að tala með slíkum hætti um heimastjórnir

Ívar Karl Hafliðason, Sjálfstæðisflokki, steig í pontu í kjölfarið og sagðist ósáttur við slíkan talsmáta um heimastjórn Seyðisfjarðar eða heimastjórnir almennt.

„Það er verið að gera lítið úr heimastjórn Seyðisfjarðar. Heimastjórnin kemur saman, sendir okkur erindi sem við svo bregðumst við. Að þegar menn eru ekki sammála og samhljóma niðurstöðu heimastjórnar þá ætla menn bara að fara að tala um að þetta sé einhver vitleysa. Þetta finnst mér ógeðslega lélegt. Þeirra tilgangur er að geta sent okkur erindi sem við fjöllum svo um. Mér finnst bara nauðsynlegt að við sýnum því virðingu því annars erum við bara að grafa undan tilgangi heimastjórna.“

Farið gegn vilja meirihluta

Helgi Hlynur Ásgrímsson, VG, tók undir með Ívari Karli að ekki mætti gera lítið úr störfum heimastjórna.

„Við verðum auðvitað að virða það sem heimatjórnir senda frá sér. Ég held að gagnrýni Hildar hafi ekki snúist um það. Hún snérist um ályktunina frá heimastjórn Seyðisfjarðar. Hún taldi að heimastjórn væri að fara gegn vilja 75% íbúanna. Heimastjórnarkerfið getur ekki orðið þannig að við hér þurfum að samþykkja allt sem kemur þaðan. Það er ekkert lýðræði í því.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.