Orkumálinn 2024

Segir daggjöldin vart duga fyrir launum starfsfólks hjúkrunarheimila

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar og þingmaður Norðausturkjördæmis, segir ríkisstjórnina hafa vanfjármagnað hjúkrunarheimili landsins árum saman. Fjarðabyggð er meðal þeirra sveitarfélaga sem sagt hafa upp þjónustusamningi sínum við ríkið.

Þetta kom fram í umræðum um rekstur hjúkrunarheimilanna á Alþingi í síðustu viku. Logi hóf umræðuna á því að segja að núverandi ríkisstjórn hefði samþykkt fern fjárlög í röð þar sem rekstur hjúkrunarheimilanna væri vanfjármagnaður og hundsað tillögur til úrbóta.

Ríkið heldur utan um heilbrigðisþjónustu en allur gangur er á hvort að ríkið rekur hjúkrunarheimilin sjálft eða útvistar rekstrinum, ýmis til sveitarfélaga, sjálfseignarstofanna eða einkaaðila. Í máli Loga kom fram að um þriðjungur þeirra sé rekinn af sveitarfélögum samkvæmt samningum við Sjúkratryggingar Íslands, sem sjá um reksturinn fyrir hönd heilbrigðisráðuneytisins.

Logi sagði sveitarfélögin hafa þurft að greiða háar fjárupphæðir til að tryggja öldruðum mannsæmandi þjónustu í heimabyggð. Hann nefndi þar meðal annars Fjarðabyggð en eins og Austurfrétt hefur greint frá hefur Fjarðabyggð greitt 130 milljónir með hjúkrunarheimilunum á Eskifirði og Fáskrúðsfirði síðastliðin þrjú ár. Fjarðabyggð hefur sagt upp samningi sínum. Það hefur Vopnafjarðarhreppur ekki gert en sveitarfélagið hefur á sjö árum lagt 175 milljónir með Sundabúð.

Logi gagnrýndi Sjúkratryggingar fyrir ráða- og viðbragðsleysi og spurði Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, hvort og hvernig hún hygðist stíga inn í málið. Reyndin væri sú að greiðslur ríkisins, daggjöld, dygðu vart fyrir launum starfsfólk heimilanna, hvað þá rekstrinum í heild. Ekki væri forsvaranlegt að láta sveitarfélögin fjármagna reksturinn með útsvarstekjum, því hann sé ekki hluti af skyldum þeirra. Það batni á annarri þjónustu.

Svandís svaraði að í lok síðasta sumars hefði hún skipað vinnuhóp til að greina raungögn um rekstur hjúkrunarheimilanna. Sá hópur átti að skila af sér í nóvember og þótt Svandís segðist vongóð um að hópurinn skilaði af sér á næstu dögum viðurkenndi hún að hún væri orðin langeyg eftir niðurstöðunum. Hún lýsti hins vegar vonbrigðum sínum að þrátt fyrir að samstaða hefði verið um skipan hópsins væri undirtónn í samskiptum aðila, sem meðal annars hefðu komið að skipaninni, gífuryrði.

Hún sagði ýmis skref hafa verið stigin í málefnum hjúkrunarheimila á kjörtímabilinu svo sem tilraunir með sveigjanlega dagdvöl og aukna heimahjúkrun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.