
Samþykkt að leita leiða til að bæta vetrarþjónustu í Múlaþingi
„Ég hef það eftir akstursaðila á Fjarðarheiðinni að þjónustan hefur þar versnað og það er ekki í samræmi við það sem var búið að tala um þegar við vorum að vinna að þessari sameiningu hér í Múlaþingi,“segir Hildur Þórisdóttir, sveitarstjórnarmaður, en samþykkt var á fundi sveitarfélagsins í vikunni að leita leiða til að endurskoða og bæta vetrarþjónustu á vegum.
Á fundinum var sérstaklega fjallað um vetrarþjónustu í dreifbýli og milli byggðakjarna en eins og Austurfrétt hefur greint frá þykir ýmsum vetrarþjónusta í sveitarfélaginu hafa versnað frá því sem áður var. Hildur tekur undir það.
„Það skýtur einhvern veginn skökku við að við séum í þessu sameiginlega sveitarfélagi með þessar miklu vegalengdir á milli og við komumst ekki á milli með góðu móti. Það væri hægt að halda ræðu um það í heilan dag hversu galið það er að Borgfirðingar eigi ekki að fara neitt á laugardögum [...].“
Bókaði sveitarstjórn að mikilvægt sé að samgöngur séu tryggðar innan sveitafélagsins alla daga vikunnar þegar slíkt er mögulegt. Sömuleiðis var samþykkt að Múlaþing fari þess á leit að Vegagerðinni verði veitt heimild til að breyta þjónustuflokkum á fáfarnari vegum er liggja innan fjölkjarnasveitarfélaga.