Samtal Fjarðalista og Framsóknarflokks heldur áfram

Fjarðalistinn og Framsóknarflokkurinn halda áfram viðræðum sínum um áframhaldandi samstarf í meirihluta í bæjarstjórn Fjarðabyggðar. Nýburi hefur hægt frekar á viðræðunum.

„Við erum í samtali við Framsóknarflokkinn og hittumst í gær. Við vildum heyra hvernig samhljómurinn væri og hvort við gætum rætt um að halda áfram samstarfi. Þó er ekkert enn fast í hendi.

Við ætlum að halda áfram að ræða við Framsókn og heyra hvernig landið liggur,“ segir Stefán Þór Eysteinsson, oddviti Fjarðalistans.

Listarnir voru í samstarfi á síðasta kjörtímabili, Framsókn með tvo fulltrúa og Fjarðalistinn fjóra. Í kosningunum á laugardag fékk Framsókn þrjá en Fjarðalistinn tvo þannig meirihlutinn tapaði einum fulltrúa. Á sama tíma bætti minnihluti Sjálfstæðisflokksins við sig tveimur.

Stefán segir lítil samskipti hafa verið milli Fjarðalista og Sjálfstæðisflokks. Hann hafi fengið símtal frá oddvita Sjálfstæðisflokks á sunnudag þar sem sá tjáði honum að flokkurinn ætlaði fyrst að tala við Framsókn. Fjarðalistinn hafi haldið sig til hlés þá en síðan hafi samtalið við Framsókn farið af stað. „Okkur finnst heiðarlegt að vera í samtali við einn í einu.“

Nokkrar sveiflur hafa verið á fulltrúafjölda Fjarðalistans síðustu ár og sigurinn sem vannst fyrir fjórum árum valt á einu atkvæði. Viðbúið var að erfitt yrði að fylgja því eftir.

„Við vonuðumst eftir þremur fulltrúum en það varð ekki að þessu sinni. Við áttum ekki von á fjórum fulltrúum enda var mjótt á mununum síðast. Núna voru líka tvö vinstri sinnuð framboð og við vissum að það væri möguleiki að atkvæði færu frá okkur til hins framboðsins, eins og ég held hafi verið raunin,“ segir Stefán en bætir við að stemmingin sé ágæt í hópnum.

Sjálfur er hann í góðu skapi en hann og kona hans, Freyja Viðarsdóttir, eignuðust dóttur á mánudagskvöld. „Ég er óneitanlega í skýjunum, þetta gerir mann kátari en ella. Það er samt öðruvísi að standa í meirihlutaviðræðum með nýbura. Það hefur hægt á ýmsu þótt hún hafi verið ósköp góð. Öllum heilsast vel og það er fyrir mestu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.