Samstarfsnefndin strax fengið aukinn aðgang að þingmönnum

Talsmenn þeirra fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi sem standa nú í sameiningarviðræðum segja strax vera farið að sjást að sameinað sveitarfélag muni hafa aukinn slagkraft til að tryggja framgang hagsmunamála fremur en hvert sveitarfélaganna fyrir sig í dag. Háskólamenntun, fasteignagjöld og umhverfi ungs fólks í nýju sveitarfélagi var meðal þess sem rætt var um á fjölsóttum íbúafundi um mögulega sameiningu á Egilsstöðum í gær.

„Við sjáum strax aukið aðgengi að þingmönnum og ráðherrum. Við fengum tvo heila daga í mars þar sem við gátum gengið á milli þingflokka. Þið hefðuð ekki fengið svona mikið sitt í hverju lagi. Svona nokkru nær ekkert sveitarfélag nema að það komi fram að afli eins og þið.“

Þetta sagði Róbert Ragnarsson, ráðgjafi við sameiningu Fljótsdalshéraðs, Borgarfjarðarhrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar og Djúpavogshrepps. Róbert er vel kunnugur sveitastjórnarmálum, hann hefur veitt ráðgjöf við fleiri sameiningar og var um tíma bæjarstjóri í Grindavík.

Sameiningaráformin eru þessa vikuna kynnt í byggðarlögunum fjórum með íbúafundum á hverju kvöldi. Sá fyrsti var á Egilsstöðum í gær en sá næsti hefst klukkan 18:00 á Seyðisfirði. Að lokinni kynningu nefndarinnar og kaffihléi gefst tækifæri til að koma á framfæri spurningum um sameininguna. Farið var um víðan völl í gær og ekki gafst rými til að svara öllum þeim spurningum sem settar voru fram. Meðal annars var spurt að því hvort sameinað sveitarfélag næði auknum slagkrafti í samningum um þjónustu og fleira við ríkið.

En það var fleira rætt, til dæmis möguleikar á háskólanámi og hvernig nýtt fólk yrði fengið til að setjast að í byggðarlögunum eða annað að flytja heim.

Brýnt að byggja upp háskólastarf

Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs og formaður samstarfsnefndarinnar, sagði að það hefði ekki verið verkefni nefndarinnar að ræða háskólanám en ljóst væri að það þyrfti að koma til. Hugur væri til að koma upp útibúi frá Háskólanum á Akureyri og það yrði nýrrar sveitarstjórnar að vinna í því máli.

Róbert bætti við að nýjustu rannsóknir í byggðamálum sýndu að besti árangurinn væri í að fá fólk til að snúa heim aftur, frekar en að koma í veg fyrir að það færi nokkurn tíman. Þess vegna þurfi að vera eftir sóknarvert að koma til baka. „Að mörgu leyti er því það að byggja upp háskóla- og rannsóknarstarf brýnna en samgöngubætur til að tryggja að þessi hópur fari ekki eða komi heim aftur.“

Oddvitar skynja alls staðar jákvæðni

Björn las í kynningu sinni upp bókun bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs þar sem lýst var eindregnum stuðningi við sameininguna. Spurt var hvernig hljóð væri í öðrum sveitarfélögum og hvort greina þyrfti betur ávinning hvers og eins byggðarlags af sameiningunni.

Gauti Jóhannsson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps, sagðist skynja jákvæðni þar. Sameining hefði verið rædd fyrir sveitarstjórnarkosningar þar í fyrra og hann ekki merkt annað en jákvæðni. Hann sagði ávinninginn fyrst og fremst vera þann sama fyrir alla, stærri heild yrði sterkari. Með því yrði hægt að bjóða upp á öflugri þjónustu. Engin kúvending yrði þó daginn eftir kjördag, heldur myndi hagur allra batna til lengri tíma litið.

Jakob Sigurðsson, oddviti Borgarfjarðarhrepps, sagðist ekki hafa heyrt annað en Borgfirðingar væru almennt frekar hlynntir sameiningunni. Þar væru bundnar vonir við að sterkara sveitarfélag gæti eflt atvinnulífið.

Vilhjálmur Jónsson, fulltrúi Seyðfirðinga í pallborðinu, sagði vinnu samstarfsnefndarinnar draga upp góða mynd af því samfélagi sem hún sæi fyrir sér. Seyðfirðingar hefðu löngum verið efins um sameiningu vegna erfiðra vetrarsamgangna en komið yrði á móts við þær, til dæmis með rafrænum lausnum. Hann sagði umræðuna um sameininguna vera aukast þar eftir að hafa verið í dvala í sumar.

Heimastjórnir gætu orðið fyrirmyndir víða

Nokkrir sendu inn spurningar um fasteignagjöld, hvort hægt væri að segja til um hvort þau myndu hækka eða lækka við sameiningu. Björn svaraði að ný bæjarstjórn myndi taka ákvarðanir um gjaldskrár en ef eingöngu yrði farið eftir núverandi gjaldskrá Fljótsdalshéraðs þá myndu fasteignagjöld á hinum stöðunum lækka.

Ennfremur var nokkuð spurt um stjórnsýslu nýs sveitarfélags. Svokallaðar heimastjórnir, skipaðar tveimur fulltrúum heimamanna og einum frá bæjarstjórn sem verða í hverju núverandi sveitarfélaga, hafa vakið nokkra athygli. Þær hafa ekki verið áður reyndar hérlendis en þekkjast meðal annars í Noregi. Róbert sagði að þar væru þær alfarið skipaðar heimamönnum en það hefði ekki endilega gefist vel því stundum hefði orðið rof milli þeirra og sveitarstjórnar.

Heimild fyrir heimastjórnunum byggir á ákvæði í sveitastjórnarlögum um tilraunaverkefni sem standa skulu í minnst átta ár. Bæði lögfræðingar Sambands íslenskra sveitarfélaga og ráðuneytis sveitarstjórnarráðuneytis hafa lagt blessun sína yfir heimastjórnirnar auk þess sem haft hefur verið samband við fleiri, svo sem Skipulagsstofnun. Ef vel tekst til er talið líklegt að bætti verði við landslög ákvæðum um heimastjórnir.

Spurt var hvort hugmyndir væru um að koma heimastjórnum á fót í fleiri hverfum Fljótsdalshéraðs. Björn staðfesti að það hefði verið rætt en talið erfitt að stíga það skref á þessum tímapunkti því óljóst væri hvar ætti að hætta. Um tíma hefðu verið 16 sveitarfélög á því svæði sem nú er verið að sameina. „En ef þetta gerir sig er ekkert sem útilokar að þetta verði ekki þróað áfram,“ sagði hann.

Ellefu fulltrúar verða í nýrri sveitarstjórn. Fleiri útfærslur voru skoðaðar, til dæmis sjö aðalfulltrúar og svo einn frá hverjum stað. Þá stendur til að fækka kjörnum fulltrúum í nefndum og ráðum umtalsvert en hækka kaup þeirra þannig að seta í sveitarstjórn verði að hlutastarfi og fundir verði á dagvinnutíma. Róbert vísaði til rannsókna um að fulltrúar jaðarbyggða heltust helst úr lestinni því þeir ættu lengra að sækja fundi en fengu yfirleitt sömu kjör og aðrir. Í sameiningarvinnunni hefði verið hugað að því að kjörin væru það góð að allir væru jafnir.

Framtíðarsýn hindri ekki framfaraskref

Gagnrýnt var að Fljótsdalshreppi hefði ekki verið boðið til sameiningarviðræðnanna og að ekki væri stærra skref með því að ráðast í að gera Austurland allt að einu sveitarfélag. Björn rifjaði upp að viðræðurnar byggðu á skoðanakönnun sem gerð var í sex sveitarfélögum. Íbúar þessara fjögurra voru jákvæðir en íbúar bæði Fljótsdalshrepps og Vopnafjarðarhrepps gáfu ótvírætt í skyn að þeir vildu ekki sameiningu. „Það var einn Fljótsdælingur fylgjandi sameiningu og það hefur enn enginn viðurkennt að vera sá,“ sagði Björn.

Hann sagðist taka undir að til lengri tíma væri rétt að horfa á Austurland sem eitt sveitarfélag en sú framtíðarsýn mætti ekki koma í veg fyrir að tekið yrði það framfaraskref sem nú sér í umræðunni. Strax myndi hjálpa að fá 1,4 milljarða meðgjöf frá ríkinu til að vinna í þróun nýs sveitarfélags og greiða niður skuldir þess.

„Það eru þrjár spurningar sem alltaf koma upp við sameiningu sveitarfélaga. Hvað á sveitarfélagið að heita, verður skólinn lagður niður og hvar verður ráðhúsið,“ sagði Róbert. Hann svaraði spurningunni sjálfur á þann veg að nýtt ferli færi í gang eftir sameiningu við val á nafni. Vinnuheitið Sveitarfélagið Austurland væri engin vísbending um það sem koma skyldi. Aðalskrifstofa yrði á ákveðnum stað en verkefnum síðan dreift út frá henni. Þá standi ekki til að loka skólum. Björn bætti við að fjarlægðir í nýju sveitarfélagi byðu ekki upp á það, annað væri hvort hagrætt yrði í yfirstjórnum.

Spurt var út í fyrirkomulag kosninganna, hvað gerist ef meirihluta íbúa einhvers sveitarfélaganna segi nei. Til að sameiningin teljist samþykkt þarf til þess annað hvort 2/3 atkvæða eða sveitarfélaga. Það þýðir að segi íbúar Fljótsdalshéraðs nei fellur sameiningin. Segi íbúar einhvers annars sveitar nei geta hin þrjú sameinast án frekari kosninga. Falli sameiningin í tveimur sveitarfélögum þurfa sveitarstjórnir þeirra tveggja sem eftir standa að hefja nýjar viðræður og efna til kosninga. Einfaldur meirihluti ræður í öllum sveitarfélögum, engin krafa er um lágmarksþátttöku til að hún teljist gild. Björn hvatti íbúa Fljótsdalshéraðs til að mæta á kjörstað. „Það er ekki valkostur að leka sameiningunni í gegn á 25-30% atkvæða.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.