Samningur um nýjan Börk sýnir sterka stöðu Karstensens

Forsvarsmenn danska skipasmíðafyrirtækisins Karstensens Skibsværft eru hæstánægðir með að hafa orðið fyrir valinu við gerð nýs Barkar NK fyrir Síldarvinnsluna.

Samherji og Síldarvinnslan sömdu í haust við Karstensens um smíði tveggja uppsjávarveiðiskipa. Það sem Samherji fær mun bera nafnið Vilhelm Þorsteinsson og koma í stað skipsins sem landaði í síðasta sinn hér á landi hjá Síldarvinnslunni fyrir skemmstu. Vilhelm á að afhenda í júní 2020.

Börkur er væntanlegur til Síldarvinnslunnar í desember 2020 en hann hefur númerið 453 í verkefnaskrá Karstensens. Nýi Börkur mun koma í stað samnefnds skips sem verið hefur í eigu Síldarvinnslunnar frá árinu 2014. Nýsmíðin verður fimmta skipið í eigu fyrirtækisins með þessu nafni.

Í tilkynningu Karstensens er haft eftir forsvarsmönnum fyrirtækisins að þeir séu hæst ánægðir með að fyrirtækið hafi orðið fyrir valinu við gerð nýju skipanna. Það sýni ekki bara stöðu þess sem leiðandi hönnuðar uppsjávarveiðiskipa heldur marki innreið þess á íslenskan markað.

Karstensens segist bjóða heildstæða hönnun þar sem allar lausnir séu sérsniðnar að þörfum og kröfum kaupenda. Hönnun Barkar og Vilhelms sé þannig útkoman af náinni samvinnu við kaupendur skipanna. Leiðarstefin þar hafi verið öryggi og þægindi áhafnar, geymslurými, vinnuaðstaða og eldsneytiseyðsla. Til að ná settum markmiðum séu skipin búin nýjustu tækni.

Skrokkar skipanna verða smíðaðir í nýrri skipasmíðastöð Karstensens í Gdynia í Póllandi. Þaðan verður það dregið til Skagen í Danmörku þar sem fyrirtækið hefur aðsetur og fullklárað. Bæði skipin eru 88 metra löng og 16,6 metra breið.

„Þetta er mjög spennandi verkefni og fellur vel að framtíðarsýn okkar hvað snertir veiðar og vinnslu uppsjávartegunda. Það er ljóst að miklar sveiflur í kvótum einkenna veiði úr okkar helstu fiskistofnum. Sókn eftir kolmunna er löng og hefur verið að færast í aukana að veiða úr þeim stofni á alþjóðlegum hafsvæðum. Þá skiptir máli að hafa stór og öflug skip.

Það er ekki langt síðan núverandi Börkur var keyptur og hann hefur reynst okkur vel, en árið 2020 verður hann orðinn átta ára gamall. Með nýjum Berki fáum við skip með öfluga kæligetu og allur aðbúnaður um borð verður mjög góður.

Við höfum kynnt okkur vel þau uppsjávarskip sem smíðuð hafa verið að undanförnu og hafa skipin frá Karstensens reynst vel, enda er mikil reynsla þar innanbúðar hvað varðar smíði á uppsjávarskipum,“ er haft eftir Gunnþóri B. Ingvasyni í tilkynningu Síldarvinnslunnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.