Sammála um að landtengja Norrænu

Fulltrúar Seyðisfjarðarkaupstaðar og Smyril-Line, rekstrarfélags ferjunnar Norrænu, eru sammála um að stefna að því að koma upp tengingu þannig að ferjan geti tengst við rafmagn þegar hún liggur í höfn á Seyðisfirði.

Þetta er meðal þess sem bar á góma á fundi fulltrúa úr bæjarráði, hafnarráði og bæjarstjóra Seyðisfjarðar með Lindu B. Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóra Smyril-Line á Íslandi, Rúni Vang Poulsen, framkvæmdastjóra fyrirtækisins og tveimur sviðsstjórum í vikunni.

Hildur Þórisdóttir, forseti bæjarstjórnar, segir fundinn hafa verið afar jákvæðan. Landtengingin hafi verið stærsta málið. „Það er framtíðarsýn beggja aðila að tengja ferjuna.

Við vitum að það er framtíðin að tengja skip við rafmagn til að draga úr mengun. Hér á Seyðisfirði höfum við verið að skoða landtengingar bæði fyrir Norrænu og skemmtiferðaskipin,“ segir Hildur.

Fyrir liggur úttekt verkfræðistofu á hvað þurfi til að koma á raftengingunni. Hildur segir hún sé fyrsta skrefið í þeirri vinnu sem framundan sé.

Nokkuð er síðan bæjarstjórn óskaði eftir fundi með Smyril-Line en Hildur segir það hafa verið sett í forgang bæjarstjórnar eftir sveitastjórnarkosninganna í fyrra að efla samskiptin við færeyska fyrirtækið.

„Það þarf að vera samtal þarna á milli því ferjan er hryggjarstykkið í atvinnulífinu hér. Fundurinn var góður og þau þakklát fyrir áhuga okkar.“

Hildur segir að á fundinum hafi einnig verið farið yfir hvernig starfsemi Smyril-Line hafi vaxið á undanförnum árum og hvernig stjórnendum fyrirtækisins þyki sú þjónusta sem því er veitt á Seyðisfirði. „Þau eru mjög ánægð með hana,“ segir Hildur.

Þá hafi verið opnað á þann möguleika að fulltrúar Seyðisfjarðar fari til Færeyja og hitti þar stjórn Smyril-Line í heild og fleiri. „Við gætum einnig nýtt þá ferð til að skoða jarðgangamál. Við getum lært margt af Færeyingum í þeim efnum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.