Samið við Landsvirkjun um sýningaraðstöðu í Sláturhúsinu

Stjórn Landsvirkjunar hefur samþykkt að leigja aðstöðu undir svokallaða Ormsstofu í menningarmiðstöðinni Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Tekjur af leigunni verða nýttar í framkvæmdir við húsið sem hefjast á þessu ári.

Endanlegur samningur hefur ekki verið undirritaður en stjórn Landsvirkjunar samþykkti nýverið að leigja aðstöðu og þjónustu í húsinu af sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði. Samningurinn verður til tíu ára og er leigan greidd fyrirfram.

Að sögn Björns Ingimarssonar, bæjarstjóra, liggur útfærsla á sýningunni, eða Ormsstofu, ekki fyrir að öðru leyti en því að hún muni snúast um samspili orku og samfélags og myndaður verði hópur til að vinna að henni með fulltrúum frá bæði fyrirtækinu og sveitarfélaginu.

Samningurinn þýði hins vegar að hægt verði að ráðast í endurbætur á húsnæðinu, sem hafa verið í deiglunni í nokkurn tíma. Gróft má rekja hugmyndir um uppbyggingu Menningarhúss á Egilsstöðum, með aðkomu ríkisins, aftur til ársins 1999 en skriður komst á hugmyndina með undirritun samnings um stofnframlag af hálfu menntamálaráðherra vorið 2018. Ríkið á að greiða sína fyrstu greiðslu í ár og svo tvær til viðbótar á næstu tveimur árum.

Áætlað hefur verið að framkvæmdirnar kosti tæpan hálfan milljarð og verði fjármagnaðar af ríkinu, sveitarfélaginu og með leigusamningum við Landsvirkjun. „Þessi samningur hefur verið ein af forsendum þess að við getum farið í verkefnið. Þegar hann liggur fyrir á ég von á að við getum einhent okkur í framkvæmdir,“ segir Björn.

Endurbætur á þaki hússins eru í forgangi auk þess sem stefnt er á að byrja að vinna við sýningarrými fyrir sviðslistir sem verða í frystiklefa á efri hæð hússins. Frystiklefinn á neðri hæðinni, sem til þessa hefur verið nýttur til sýningahalds, fer undir Ormsstofu. Samhliða henni þarf að gera töluverðar breytingar á anddyri og aðkomu hússins.

„Við hefðum viljað fara fyrr af stað en við vildum ekki byrja fyrr en búið væri að loka öllum samningum. Það er ekki ljóst hvenær við byrjum en ég tel ekki raunhæft að byrja fyrr en í haust, úr því sem komið er. Svo kemur í ljós hve langt við komumst í ár.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.