Samherji mun selja af sínum hlut í Síldarvinnslunni

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja segir að það liggi ljóst fyrir að Samherji mun selja eitthvað af sínum bréfum í Síldarvinnslunni en hversu stóran hlut liggur ekki fyrir á þessum tímapunkti. Það sé ekki unnið út frá því að hlutafé verði aukið.

Þetta kemur fram í opnuviðtali við Þorstein Má í Markaðinum, fylgiblaði Fréttablaðsins í dag. Þar segir Þorsteinn einnig að ekki hafi verið rætt til hlítar innan hluthafahópsins hverjir munu selja sig niður í væntanlegu útboði.

„Sú umræða hefur ekki farið fram að fullu leyti innan fyrirtækisins. Kynningar vegna sölunnar eru að fara af stað núna á næstunni. Landsbankinn stýrir þessu ferli og þeir ætla að upplýsa lífeyrissjóði og aðra um stöðu mála á næstu vikum. Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort allir hluthafar selji sig jafnt niður, þar tekur hver og einn hluthafi ákvörðun um það.“ segir Þorsteinn í viðtalinu.

Fram kemur að Samherji er stærsti eigandi Síldarvinnslunnar með tæplega 45 prósenta hlut. Næststærsti hluthafinn er eignarhaldsfélagið Kjálkanes með ríflega 34 prósenta hlut. Kjálkanes er í eigu einstaklinga sem einnig eiga útgerðina Gjögur sem er með höfuðstöðvar sínar á Grenivík í Eyjafirði. Þriðji stærsti hluthafinn er svo Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað sem hefur verið veigamikill hluti af í samfélaginu þar fyrir austan í áratugi.

Eins og kunnugt er af fréttum er fyrirhugað að skrá Síldarvinnsluna í Kauphöllina á fyrrihluta þessa árs. Í viðtalinu kemur fram að rætt hafi verið um að verðmæti félagsins liggi á bilinu 90 til 100 milljarðar kr. Þorsteinn vill ekki velta fyrir sér hver sé hugsanlegur verðmiði á félaginu í útboðinu sem er framundan.

„Bankamennirnir sjá um það. Ég velti mér ekki mikið upp úr því hver verðmiðinn er á þeim fyrirtækjum sem ég kem að. Ég hugsa þetta ekki á þennan hátt. Ég hef fyrst og fremst áhuga á því að fyrirtækin fjárfesti í eigin rekstri þannig að skip, vinnslur, tækni og búnaður séu í fremstu röð hverju sinni til þess að geta mætt síbreytilegum kröfum viðskiptavina sinna.“ segir Þorsteinn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.