Samfylkingarfólk á Héraði gagnrýnir flokkinn: Hvernig er ekki hægt að sjá bjálkann í eigin auga

Samfylkingarfélag Fljótsdalshéraðs fer ómjúkri hendi um forustu og þingmenn flokksins í ályktun sem samþykkt var á félagsfundi í morgun. Félagið gagnrýnir þingflokkinn fyrir afgreiðslu sína í landsdómsmálinu, umbótanefnd flokksins fyrir hægagang og ógagnsæi og fyrir niðurskurð í heilbrigðismálum á Austurlandi.

 

Í ályktunni segir að einstakir þingmenn flokksins hafi með atkvæðum sínum í landsdómsmálinu „sært Samfylkinguna og stjórnmál landsins svo djúpu sári að ekki verður grætt á næstu árum. Um það er ekki bitist í yfirlýsingu þessari hvort þingmenn hefðu átt að segja JÁ eða NEI, heldur hvernig hægt er að hlaupa milli feigs og ófeigs eftir eigin geðþótta á augnabliki.“

Sjálfstæðismaðurinn Geir Haarde fer fyrir landsdóm en flokksbróðir hans, Árni Mathiesen og samfylkingarmennirnir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Björgvin G. Sigurðsson ekki. Jónína Rós Guðmundsdóttir, þingkona Samfylkingarinnar af Héraði, var eini þingmaður flokksins sem studdi að allir ráðherrarnir yrðu ákærðir.

„Þau vinnubrögð einstakra þingmanna að sjá ekki yfirsjónir félaga sinna, eða að telja yfirsjónir pólitískra andstæðinga stærri en liðsfélaga sinna fordæmir stjórn SFF meir en orð fá lýst. Hvernig er hægt að sjá flís í auga náungans með bjálka í sínu eigin?“

Í framhaldi af þessu skorar félagið á Umbótanefnd Samfylkingarinnar að „taka til starfa með sýnilegum hætti svo fljótt sem verða má. Því ei virðist vanþörf á. Fljótt þarf að koma í ljós hvort hægt er að plástra þau mein sem hrjá Samfylkinguna um þessar stundir.

Einnig beinir stjórn SFF því til ríkisstjórnar Íslands að hefja þegar það verk að setja niður hæla fyrir þá skjaldborg heimilana sem ætlað var.“

Félagið styður kröfur annarra austfirskra félaga um að niðurskurður á fjárframlögum til heilbrigðismála í fjórðungnum verði endurskoðaður rækilega.

„Í ljósi umræðu undanfarna daga um niðurskurð í heilbrigðismálum tekur SFF heilshugar undir þær ályktanir sem hafa komið fram frá SSA, sveitarfélögum, fyrirtækjum og íbúum á Austurlandi vegna niðurskurðar í heilbrigðismálum á Austurlandi. Félagið krefst þess að þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar hafni þeim tillögum sem hafa komið fram og vill að tillögur um niðurskurð verði unnar í nánu samstarfi og samráði við hagsmunaðila.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.