Samfélögin á Seyðisfirði og Mjóafirði þola ekki mikla bið eftir göngum

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar hvetur til þess að skoðaðar verði allar mögulegar útfærslur til að flýta því að göng frá Egilsstöðum til Seyðisfjarðar og þaðan áfram til Norðfjarðar um Mjóafjörð verði að veruleika.

Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var í lok fundar bæjarstjórnar í gær.

Þar er því fagnað að fyrir liggi skýrsla starfshóps á vegum samgönguráðherra um legu jarðganga til Seyðisfjarðar sé komin fram. Skýrslan var opinberuð á miðvikudag en þar er fyrrnefnd gangaleið lögð til og að byrjað verði á Fjarðarheiðargöngum.

Í ályktun bæjarstjórnarinnar segir að ljóst sé að samfélögin á Seyðisfirði og Mjóafirði geti ekki beðið lengur eftir þessum samgöngubótum, frekar en Austurland.

Því hvetur bæjarstjórn Fjarðabyggðar ráðherra samgöngumála og Alþingi allt til að setja gerð jarðgangna til að tengja þessi samfélög í forgang við endurskoðun samgönguáætlunar á þingi komandi. Þannig verði hægt að hefja framkvæmdir sem fyrst við gerð þessara mikilvægu samgöngubótar sem skiptir Austurland allt svo miklu máli.

Bæjarstjórnin gerir sér vel grein fyrir því að umræddar samgöngubætur eru mjög kostnaðarsamar en minnir á í því samhengi þau miklu útflutningsverðmæti sem verða til í Fjarðabyggð og Austurlandi öllu. Því sé sterk byggð á Austurlandi, sem og á landinu í heild, íslensku samfélagi svo mikilvæg.

Þá telur bæjarstjórn Fjarðabyggðar eðlilegt að skoðar verði allar útfærslur við gerð og rekstur slíkrar samgöngubótar ef það verður til flýtingar hennar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.