Samfélagssjóður Fljótsdals stofnaður

Auglýst hefur verið eftir umsóknum í fyrstu úthlutun samfélagssjóðs Fljótsdalshrepps. Allt að tólf milljónum króna verður veitt í styrki við fyrstu úthlutun sjóðsins.

Sjóðurinn var stofnaður nýverið með stofnframlagi upp á sjötíu milljónir króna. Sjóðurinn er afsprengi samfélagsverkefnisins „Fögur framtíð í Fljótsdal“ sem hrundið var af stað fyrir ári.

Eitt af áhersluatriðum átaksins var að stofna verkefnasjóð til stuðnings nýsköpunar, menningar og atvinnuskapandi verkefnum í Fljótsdal, sem nú hefur verið komið á laggirnar.

Í skipulagsskrá sjóðsins kemur fram að markmið hans og tilgangur sjóðsins sé að styrkja fjárhagslega verkefni á sviði atvinnu, nýsköpunar, umhverfis, velferðar og menningar sem stuðli að jákvæðri samfélagsþróun og/eða eflingu atvinnulífs á því landssvæði er innan núverandi Fljótsdalshrepps. Einstaklingar, stofnanir og fyrirtæki geta sótt um í sjóðinn, uppfylli verkefni þeirra þessi skilyrði.

Í tilkynningu segir að helstu atvinnugreinar svæðisins séu ferðaþjónusta, sauðfjárrækt, skógrækt og vinnsla skógarafurða og iðnaður en Fljótsdalsstöð er fjölmennasti vinnustaðurinn á svæðinu.

Umsóknarfrestur er til 30. apríl. Nánari upplýsingar um sjóðinn má vinna á vef Fljótsdalshrepps.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.