Sameiningarmál: Liggur fyrir að fólk mun ekki missa vinnuna

Sameining Fljótsdalshéraðs, Borgarfjarðarhrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar og Djúpavogshrepps gengur ekki út á stórkostlega hagræðingu heldur betri nýtingu á fólki að sögn talsmanna samstarfsnefndar sveitarfélaganna. Hafnarmál, vald heimamanna og ýmsar framkvæmdir voru meðal þess sem rætt var um á íbúafundi á Seyðisfirði í aðdraganda sameiningarkosninga.

„Það hefur ekki verið farið í stórkostlega þarfagreiningu á mannahaldi en það liggur ljóst fyrir að þarna mun fólk ekki missa vinnuna. Það verður lögð áhersla á að halda í þann mannauð sem er til staðar og nýta betur sérstaka hæfileika starfsmanna yfir víðara svæði.

Í dag eru sveitarfélögin hvert með sinn atvinnu-, íþrótta- og menningarfulltrúa. Eftir sameiningu verður svo að einn verður sterkur í atvinnumálunum, annar í íþróttunum og sá þriðji í menningunni.“

Þannig svaraði Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs og formaður samstarfsnefndarinnar, fyrstu spurningu og reyndar vinsælustu spurningu kvöldsins sem var um starfsmannahald væntanlegs sveitarfélags og hvort fólk myndi missa vinnuna við hana.

Róbert Ragnarsson, ráðgjafi við sameininguna, sagði síðar að mikilvægt yrði að hafa starfsmenn með í að móta starfsumhverfi nýs sveitarfélags eftir sameiningu. Ljóst er að það yrði ekki beinn og breiður vegur en bregðast yrði við þeim hindrunum sem á leiðinni yrðu þegar þær kæmu uppi. „Ef vel á að ganga verður starfsfólkið sem vinnur frá degi til dags að fá að taka þátt í breytingunni og vera hluti af henni.“

Áhaldahús og ráðhús

Þriðja spurning kvöldsins var um hvort áfram yrði áhaldahús á öllum stöðunum. „Það þarf að halda ákveðinni grunnþjónustu vegna fjarlægða. Það er ekki hagkvæmt að flytja mannskap og vinnuvélar að svo stöddu,“ sagði Róbert Ragnarsson, annar ráðgjafa við sameiningarvinnuna „Ýmislegt er ekki hægt að leggja niður. Það verða ekki fjórar bæjarstjórnir. Tilgangurinn er ekki hagræðing heldur að styrkja stjórnsýsluna,“ sagði Hildur Þórisdóttir, forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði.

Spurt var beint út hvar ráðhús nýs sveitarfélags yrði staðsett. Talsmenn sameiningarinnar gerðu grín að orðum Björns í útvarpsviðtali í gær um að það yrði í gömlu og virðulegu húsi. „Við erum öll sammála um að það væri ekki á Fljótsdalshéraði,“ sagði Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps. Róbert bætt við að ýmsar leiðir væru færar, í Suðurnesjabyggð væru tvö ráðhús. Væntanlega yrði meginhluti þjónustunnar þó á Egilsstöðum.

Ábending kom úr salnum um að nýtt sveitarfélagi ætti að sýna gott fordæmi með að auglýsa störf án staðsetningar. Gauti sagðist vilja ganga enn ákveðnar fram og auglýsa störfin á ákveðnum stað til að tryggja að starfsstöðvarnar í hverju byggðarlagi yrðu mannaðar þannig að hægt væri að tala um vinnustaði. „Það skiptir meira máli hvort það eru tveir eða þrír starfsmenn á Djúpavogi en 19 eða 20 á Egilsstöðum.“

Ekki hægt að binda bæjarfulltrúa ákveðnum stað

Á fundinum á Seyðisfirði var þó nokkuð spurt út í valddreifingu í nýju sveitarfélagi, það er hættuna að mannfjöldinn á Fljótsdalshéraði myndi rúlla yfir aðra, hvort ekki hefði verið hægt að tryggja að hvert núverandi sveitarfélaga hefði minnst einn fulltrúa þar inni og hvaða áhrif það hefði að hafa hann ekki.

Róbert svaraði því til að slíkt væri hægt miðað við núverandi sveitarstjórnalög. Borgfirðingurinn Helgi Hlynur Ásgrímsson bætti við að nokkuð hefði verið rætt um þetta innan samstarfsnefndarinnar. Sú staða gæti hins vegar komið til að fulltrúi Borgfirðinga væri í bæjarstjórninni með rétt yfir 20 atkvæði að baki sér en aðrir með hundruð atkvæða. Slíkt gengi ekki upp. Hins vegar sæju framboðin sér vonandi tækifæri í að hafa fulltrúa sem víðast að á listum sínum.

Í staðinn verða þriggja manna heimastjórnir á hverjum stað, með tveimur fulltrúum kosinni beinni kosningu og þeim þriðja frá bæjarstjórn. Á fundinum í gær var farið yfir að þær fengju fullnaðarheimild til að afgreiða deiliskipulag, tækju yfir málefni náttúruverndarnefnda og gæti gert tillögur til bæjarstjórnar um allt sem varðaði þeirra nærsamfélag.

Varað var því að aukið álag á bæjarfulltrúa og vaxandi vegalengdir gætu fælt þá sem lengst búa frá þátttöku. Bent var á að vaxandi kröfur væru gerðar til bæjarfulltrúa í dag. Björn svaraði því að gert væri ráð fyrir nokkuð tíðum fundum og meiri völdum til þeirra þriggja fagnefnda sem starfa munu, þótt það sé ekki að fullu útfært. Þá munu kjör fulltrúa batnað þannig þeir geti litið á bæjarstjórnina sem hlutastarf.

Kosið verður um sameininguna þann 26. október næstkomandi. Ef sameiningin er samþykkt verður kosið í nýja sveitarstjórn í mars eða apríl á næsta ári. Hún tekur við 15 dögum eftir kosningar. Í gær var spurt hvers vegna kosið væri á miðju kjörtímabili núverandi sveitastjórna. „Það er til að gefa nýrri sveitarstjórn skýrt umboð til að fylgja eftir breytingum. Hin leiðin er að bíða til 2022 en þá þarf að fá heimildir frá öðrum fyrir stærri ákvörðunum. Þegar sameining liggur fyrir má ekki binda sveitasjóð,“ útskýrði Róbert. Kosið verður í heimastjórnirnar um leið.

40% viðbótarframkvæmda á Seyðisfirði

Nokkrir Seyðfirðingar vildu vita um fyrirkomulag hafnarmála, hvort þau myndu jafnvel heyra undir heimastjórnirnar. Talsmenn samstarfsnefndarinnar svöruðu því að þetta lægi ekki fyrir. Ekki mætti ofhlaða heimastjórnirnar verkefnum. Hagur gæti verið í að vera með sameiginlega hafnarstjórn fyrir allt sveitarfélagið því verkefnin væru oft hin sömu í höfnunum.

Nokkuð var spurt um fjármál nýs sveitarfélag, hvert framlag yrði til viðhalds- og nýframkvæmda á Seyðisfirði og hvort það fjármagn sem ætlað væri í slík verkefni, 730 milljónir á ári næstu 10 ár, væri nægjanlegt.

Í vinnunni hefur komið fram að sveitarfélögin fjögur eru með áætlaðar fjárfestingar upp á 3,5 milljarða, en áætlað hefur verið að ákjósanlegt sé að framkvæma fyrir 2,6 milljarða í viðbót. Þar af eru 40% þeirrar viðbótar á Seyðisfirði. Nákvæm útfærsla og forgangsröðun verkefna verður í höndum nýrrar sveitarstjórnar.

„Það er erfitt að segja að einn kjarni verði umfram aðra í sameinuðu sveitarfélagi. Það verður að byggja eins vel og hægt er fyrir hvern kjarna og nýta styrkleika sem eru til staðar,“ svaraði Björn spurningu hvort minni staðirnir fengju að njóta forgangs þar sem innviðirnir væru almennt í góðu ástandi á Fljótsdalshéraði.

Spurt var út í bæði þjónustu fyrir eldri borgara og nýjan skóla á Seyðisfirði. Björn svaraði því til að eitt forgangsmál framtíðarfjárfestingaáætlunar væri að koma aðstöðu fræðslumála í lag. Róbert sagði að hagræðing í rekstri yrði til þess að efla þjónustu, þar með talið fyrir eldri borgara.

Fjarðarheiðargöng algjört forgangsmál

Sveitarstjórnaráðherra hefur að undanförnu talað fyrir því að stærð sveitarfélaga verði skilyrt við að minnsta kosti 1000 íbúa frá árinu 2026. Fulltrúar samstarfsnefndarinnar voru spurðir út í skoðun þeirra á lágmarksstærðinni.

Gauti benti á að auka landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga hefði tekið undir hugmyndirnar með miklum meirihluta og Björn sagðist sannfærður um að sett yrði skilyrði um lágmarksfjölda. Það væri skynsamlegt til lengri tíma litið en hann vissi að ekki tækju allir undir það. Páll Björgvin Guðmundsson, annar ráðgjafa nefndarinnar, sagði spurninguna snúast um hvort sveitarfélögin gætu haldið uppi þeirri þjónustu sem íbúar þeirra krefðust. Hildur sagðist sammála því að skynsamlegt að sveitarfélög væru með um 1000 íbúa. Hún væri hins vegar ekki hrifin af lögþvinguðum sameiningum og hún væri ekki trúuð að þær gengju í gegn.

Þá var spurt út í hvernig barist yrði fyrir Fjarðarheiðargöngum. Gauti svaraði að þau væru „algjört forgangsmál.“Hildur kvaðst binda vonir við að meiri slagkraftur yrði í 5000 manna sveitarfélagi. Baráttan væri hagsmunamál alls Austurlands. Björn tók undir það, ekki væri bara verið að ræða göng fyrir Seyðisfjörð heldur að mikilvægri gátt Íslands við útlönd og fyrir framtíðarþróun Austurlands.

Næsti fundur verður á Hótel Framtíð á Djúpavogi klukkan 18:00 í dag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.