Sameining sveitarfélaga: Erum ekki að tala um að loka afgreiðslum

Mikilvægt er að tryggja áfram þjónustu og sjálfákvörðunarrétt íbúa í byggðarkjörnum ef af sameiningu sveitarfélaganna Fljótsdalshéraðs, Seyðisfjarðarkaupstaðar, Borgarfjarðarhrepps og Djúpavogshrepps verður á næsta ári. Unnið er með hugmyndir um héraðsráð sem fengin verði meiri völd en áður hefur þekkst hérlendis.

Þetta var meðal þess sem fram kom í viðtali við Björn Ingimarsson, bæjarstjóra á Fljótsdalshéraði og formann samstarfsnefndar sveitarfélaganna, í þættinum Landsbyggðirnar á N4 á fimmtudagskvöld.

Nefndina skipa þrír fulltrúar frá hverju sveitarfélaganna en að auki hafa verið settir á fót sérstakir hópar um valin málefni. Þeir hópar eiga að skila af sér fyrstu niðurstöðum í byrjun mars og verður viðbragða við þeim leitað með íbúafundum. „Þeir fundir munu gefa okkur skilaboð um hvernig eigi að móta þetta áfram,“ sagði Björn.

Mestu skiptir að þjónustan sé til staðar, ekki hver veitir hana

Björn sagði markmið sameiningarinnar vera að efla þjónustu við íbúa. „Slagkraftur okkar verður meiri sameinaðri en í samstarfi, eins og verið hefur. Æ meira af ungu fólki snýr aftur í heimabyggð og það gerir kröfur um að þjónustan standist það sem þau best þekkja. Ég er ágætlega bjartsýnn á að sameinað sveitarfélag verði vel til þess fallið.

Það er mikilvægt að fólk sé meðvitað um að þessi vinna snýst um að þróa og viðhalda þjónustu við íbúana. Við finnum það á fólkinu að það skiptir ekki öllu máli hvort sveitarfélagið sem veitir hana heiti þetta eða hitt, heldur að hún sé til staðar.“

Völd í hendur heimafólks

Ef af sameiningu verður verða íbúar í nýju sveitarfélagi um 5000 talsins og það mun ná yfir 11 þúsund ferkílómetra svæði. Krefjandi verður að sinna þjónustu á svo dreifðu svæði en Björn tekur fyrir að ráðist verði í að koma henni fyrir á einum stað.

„Það er mikilvægt að fulltrúar í stjórn nýs sveitarfélags séu mikilvægir um mikilvægi þess að virða hvern byggðarkjarna. Við höfum rætt þessi mál í hópnum og erum sammála um að það að búa til einn meginkjarna sem sinnir öllu eða gleypir allt er ekki vegferð sem við viljum fara í.“

Við tölum mjög ákveðið um að við erum ekki að loka afgreiðslum. Það er mikilvægt að íbúar geti gengið að þjónustu á hverjum stað og upplifi að þeir hafi tengingu við stjórnsýsluna, ekki að þeir þurfi að keyra 100-200 km til að komast á skrifstofuna. Í okkar umræðum höfum við talað um að afgreiðslur verði á hverjum stað.“

Til að mæta þörfum heimamanna er hugmyndin að koma á svokölluðum héraðsráðum sem fengin verði nokkur völd. „Þau verði ekki eingöngu til ráðgjafar heldur hafi ákveðinn ákvörðunarrétt, til dæmis í skipulagsmálum nærsamfélagsins. Þetta er ein af þeim nýju hugmyndum sem unnið hefur verið með í þessu ferli því hún hefur ekki verið útfærð annars staðar hérlendis.“

Aðspurður um skólamál sagði Björn ennfremur að ekki stæði til að gera miklar breytingar á þeim. „Ég held að það sé ekki kostur að loka skóla á stað sem kallar á að keyra þurfi 2-3 tíma í skólann,“ sagði Björn. Hann bætti við að hægt væri að leggja línur um stefnu sameinaðs sveitarfélags nokkur ár fram í tímann og nýir bæjarfulltrúar yrðu að vilja skýran vilja íbúa. „Það er mikilvægt að þeir verði meðvitaðir um að það sé ekki bara massinn sem ráði.“

Að segja sjálfum sér upp

Stefnt er að því að vinnu samstarfsnefndarinnar ljúki í haust. Þá verði niðurstöðurnar aftur kynntar með íbúafundum og kosið áður en árið er á enda. Björn var spurður að því í gær hvort ekki væri sérstakt að leiða nefnd sem í raun gengi út á að leggja niður starf hans- og hann segi þannig sjálfum sér upp störfum.

„Verði sameinað er mínum samningi lokið, þannig er það. Stóra málið er ekki ég og þú heldur heildin, hvernig fer fyrir henni. Ef ég verði ekki þarna þá verður maður að finna sér annað að gera. Vinnan er það áhugavert að ég læt þetta ekki trufla mig.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar