Sameining með valdi vofir yfir austfirskum sveitarfélögum

Sex austfirsk sveitarfélög verða sameinuð með lögum á næstu tíu árum verði tillögur verkefnisstjórnar ráðherra sveitastjórnarmála um eflingu sveitastjórnarstigsins að veruleika.

Í tillögunum er gert ráð fyrir að lágmarksfjöldi íbúa í hverju sveitarfélagi verði 1000 árið 2026. Gefinn er aðlögunartími að þessu, árið 2020 verði lágmarksfjöldinn 250 og 500 árið 2020. Slíkar sameiningar yrðu ekki bornar undir íbúa í atkvæðagreiðslu.

Fjórtán sveitarfélög eru undir 250 íbúa markinu, þar af þrjú á Austurlandi: Borgarfjarðarhreppur, Fljótsdalshreppur og Breiðdalshreppur.

Á vegum Breiðdalshrepps er unnin skýrsla um framtíð sveitarfélagsins þar sem meðal annars er lagt mat á mögulega sameiningu við annað hvort Fljótsdalshérað eða Fjarðabyggð. Skýrslan á að vera tilbúin fyrir lok október.

Djúpavogshreppur er undir 500 íbúa viðmiðinu. Viðræður hafa staðið yfir síðustu misseri um sameiningu við Hornafjörð og Skaftárhrepp. Að auki eru Vopnafjarðarhreppur og Seyðisfjarðarkaupstaður undir 1000 íbúa markinu.

Enginn Austfirðingur var í sjálfri verkefnisstjórninni en Sigrún Blöndal, bæjarfulltrúi á Fljótsdalshéraði og formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi var í svokölluðum bakhópi.

Þá var Fjarðabyggð eitt af tólf sveitarfélögum þar sem gerð var könnun um viðhorf og væntingar íbúa til sveitarfélaga. Þar var sveitarfélögum skipt í þrjá flokka, fámenn, sameinuð og stór. Niðurstöður könnunarinnar var í grófum dráttum sú að íbúar stóru sveitarfélaganna lifðu sig fjarri sveitarfélaginu og síður hluta af sögu og menningu svæðisins. Lítill munur var á svörum sameinuðu og fámennu sveitarfélaganna.

Ekki fleiri verkefni!

Þá fundaði verkefnisstjórnin með austfirskum sveitarstjórnarmönnum á Egilsstöðum í febrúar. Þangað mættu fulltrúar annarra en Vopnafjarðar og Fljótsdals.

Meðal tillagna verkefnisstjórnarinnar er fleiri verkefni verði flutt til sveitarfélaganna en miðað við bókun úr fundargerðinni frá fundinum frá Egilsstöðum eru Austfirðingarnir andvígir því.

Bókað er að umræðan um að taka við fleiri verkefnum sé ekki lengur til staðar í ljósi slæmrar reynslu og ekki komi til greina að taka við heilbrigðisþjónustunni. Erfiðra sé fyrir sveitarfélag en ríkið að klikka á þjónustu og miðað við núverandi aðstæður og óbreytt viðhorf í samskiptum ríkis og sveitarfélaga sé best að ríkið veiti þjónustuna.

Bent er þó að austfirsku sveitarfélögin hafi unnið ágætlega saman að verkefnum sem þau hafi tekið við. Á síðasta fundi bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs var rætt um að óska eftir víðtækara samstarfi og sameiningu síðar við þau sveitarfélög sem þegar standa að félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs og Brunavörnum á Austurlandi. Auk Fljótsdalshéraðs eru þar Fljótsdaldshreppur, Borgarfjarðarhreppur, Vopnafjarðarhreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður og Djúpavogshreppur.

Á fundinum er einnig hvatt til þess að unnið sé að stefnumótun til lengri tíma en ein af tillögum verkefnisstjórnarinnar er að ráðast í stefnumótun til 20 ára á hlutverki sveitarfélaga.

Sveitarfélög landsins eru 74 í dag en voru 124 árið 2000. Þeim fækkaði skarpt á árunum 1990-2005 en síðan hefur lítið gerst í sameiningarmálum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar