Orkumálinn 2024

Sameining þjóðgarða: Aðkomu heimamanna er sleppt

bjorn_armann.jpgHeimamenn á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs vara við að hugmyndir um sameiningu stjórnunar og friðlýstra svæða í eina stofnun gangi gegn grunnhugmyndum Vatnajökulsþjóðgarðs um virka þátttöku heimamanna í stjórnun hans. Þeir vara við að allt valdið verði flutt suður til Reykjavíkur.

 

„Aðkomu heimamanna, sem var eitt af aðalatriðunum við stofnun garðsins, er sleppt og þeir verða bara ráðgjafar, aðalráðgjafa forstjóra stofnunarinnar,“ segir Björn Ármann Ólafsson, formaður svæðisráðs austursvæðisins í samtali við Agl.is en sem slíkur á hann einnig sæti í yfirstjórn þjóðgarðsins.

Björn Ármann gagnrýnir harðlega þær hugmyndir sem settar hafa verið fram af umhverfisráðuneytinu um að stjórnun þjóðgarða og friðlýstra svæða verði sameinaðar í einni stofnun, eins og Agl.is hefur greint frá.

„Það var mikil vinna lögð í það í upphafi að finna leið til stofnunar þjóðgarðs sem allir aðilar sem að garðinum koma gætu sætt sig við. Það var gefin út þykk skýrsla ráðgjafarnefndar um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs sem átti að vísa veginn um það hvernig skyldi staðið að stofnun og þróun garðsins.Með þessum tillögum sem hér birtast er þeirri vinnu hent út um gluggann að mínu mati og búin til ein stofnun sem verður staðsett í Reykjavík eða Akureyri eins og sagt var við kynningu Hvítbókar ráðuneytisins.“

Í greinargerðinni sem unnin var fyrir ráðuneytið segir að „mikil fagleg og rekstrarleg“ samlegð náist með sameiningunni. Björn Ármann tekur ekki undir það. „Þjóðgarðurinn hefur ekki enn verið þróaður í það form sem áætlað hefur verið. Ekki hefur fengist fjármagn til að ljúka því verki. Því er hæpið að tala um hagræðingu á þessu stigi málsins.“

Björn Ármann gagnrýnir einnig tímasetningu vinnunnar. Vatnajökulsþjóðgarður hafi aðeins verið stofnaður formlega sumarið 2008 og sé rétt að slíta barnsskónum. „Vinnan er rétt að hefjast. Það skipulag sem nú er á stjórnun garðsins, dreift lýðræði, verður lagt af með þessum tillögum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.