Sakfelldur fyrir að brugga krækiberjavín

Héraðsdómur Austurlands dæmdi í gær ríflega sextugan karlmann til sektar fyrir að hafa bruggað 95 lítra af krækiberjavíni. Dómurinn lagði ekki trúnað á þann framburð að fyrir kunnáttuleysi hefði saftin hans gerjast.


Heimabruggið fannst í fjórum kútum við húsleit í mars 2015 en lögreglu barst nafnlaus ábending um að verið væri að brugga í húsnæðinu.

Athugasemdir voru gerðar við húsleitina þar sem bæði húsráðandi og unnusti hennar, sem átti vínið, voru erlendis. Sonur húsráðanda bjó í öðrum hluta hússins og hleypti lögreglu inn og var viðstaddur leitina.

Hann bar að honum hefði verið þvert um geð að hleypa lögreglu inn en látið undan þar sem hann var undir tímapressu vegna vinnu sinnar, að höfðu samráði við föður sinn sem er lögmaður.

Verjandi ákærða taldi húsleitina ólögmæta og því bæri að líta framhjá sönnunargögnum sem í henni fundust. Dómurinn taldi að eðlilegt hafa snúið sér til sonarins í fjarveru húsráðenda og ekki væri séð að lögregla hann hefði beitt hann ólögmætri þvingun.

Í leitinni voru gerðir upptækir 95 lítrar af áfengi með 13-15% vínandamagni ásamt tveimur plastfötum með loki og tveimur plastkútum.

Að búa til saft í fyrsta skipti

Fyrir dómi bar ákærði að hann hefði tínt krækiber sumarið 2014, saftað þau og sett á kúta eftir gamalli uppskrift. Þetta væri í fyrsta sinn sem hann byggi til slíka saft og fyrir trassaskap hefði hann ekki sett hana á flöskur. Þá neitaði hann að hafa bætt út í uppskriftina íblöndunarefnum til áfengisframleiðslu.

Þessi framburður samræmdist ekki því sem maðurinn sagði við lögreglu á sínum tíma. Þar sagðist hann hafa verið að gera áfengi „eins og allir landsmenn“ og fannst óskiljanlegt að hægt væri að kaupa tæki til víngerðar en ekki gera vín.

Fyrir dómi kvaðst maðurinn ekki muna eftir að hafa sagt neitt af þessu. Hann rengdi ekki skýrslu lögreglu en ítrekaði fullyrðingu sína um að hann hefði ekki ætlað að gera áfengi.

Sex vikur að tína krækiber

Verjandi mannsins fór fram á sýknu þar sem manninum hefði ekki gengið það til að framleiða áfengan vökva auk þess sem ósannað væri að hann væri neysluhæfur í skilningi áfengislaga. Dómurinn taldi að ekki hefðu verið leiddar að því líkur að vökvinn væri ekki neysluhæfur í skilningi laganna þótt hann hafi ekki endilega verið lystugur.

Þá taldi dómurinn að breyttur framburður mannsins þar hefði á sér „ólíkindablæ“. Hann hefði ekki sett saftina á flöskur þótt það væri skýrt í leiðbeiningum og skilið hana eftir í stofuhita þótt ekki væri talað um það.

„Að áliti dómara eru viðbárur ákærða um kunnáttuleysi hans við saftgerð og trassaskap harla ótrúverðugar, m.a. þegar litið er til þess framburðar hans sjálfs að um hafi verið að ræða afrakstur sex vikna vinnu hans við berjatínslu.“

Eins vísaði dómurinn á bug athugasemdum verjanda um að óvissa væri um meðferð vökvans frá því hann var gerður upptækur þar til hann komst á rannsóknarstofu.

Verjandi mannsins benti á að fyrir Alþingi lægi frumvarp um breytingar á áfengislögum. Í greinargerð með frumvarpinu segir að lítil meðvitund sé í samfélaginu um bann við framleiðslu áfengis til einkaneyslu. Dómurinn taldi það hins vegar ekki til refsiminnkunar þar sem bannið hefði verið í gildi um árabil.

Dómurinn sektaði manninn því um 160 þúsund krónur. Honum er að auki gert að greiða 710 þúsund í sakarkostnað.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.