Sagt um gangaskýrslu

Samgönguráðherra kynnti í gær á tveimur fundum skýrslu starfshóps um jarðgangatengingar til Seyðisfjarðar. Seinni fundurinn var opinn og þar tóku ýmsir til máls sem lýstu skoðunum sínum á tillögum hópsins um að byrjað verði á göngum undir Fjarðarheiði og þaðan haldið áfram til Norðfjarðar um Mjóafjörð. Austurfrétt hefur tekið saman nokkur viðbrögð frá fundinum og víðar við tillögunum.


Einar Már Sigurðarson, formaður SSA og bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð:
Ég er ánægður með ráðherra sem er tilbúinn að hugsa út fyrir boxið. Við þurfum öll að sanda saman um að þetta er stóra verkefnið og strengja þess heit að þetta verði upphafsdagur stórfelldra samgönguframkvæmda á Austurlandi.

Arnbjörg Sveinsdóttir, fyrrverandi þingmaður, forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði og fulltrúi í starfshópnum:
Ég heyri ekki betur en samgönguráðherra sé tilbúinn að láta af þessu verða. Ég skil orð hans um samgönguáætlun þannig að inn í hana vanti 3-4 milljarða til að byrja á jarðgöngum og þeir verði komnir. Þegar er lokið miklu af rannsóknum þannig að undirbúningurinn þarf ekki að vera nema hámark tvö ár, mögulega eitt. Ég vil skilja orð þín þannig að þú viljir flýta þessu og það myndi gleðja okkur mjög að heyra frá þér að það verði raunin. Það er greinilega ekki búið að útfæra veggjöldin alveg en ég trúi að Austfirðingar gangi eins og aðrir að því að borga þau.

Þorvaldur Jóhansson, fyrrverandi bæjarstjóri á Seyðisfirði:
Þetta er gleðidagur. Það fyrsta sem ég man eftir að heyra minnst á um Fjarðarheiðargöng var í mars 1975. Þá voru á fundi í samgönguráðuneytinu Brynjólfur Ingólfsson, ráðuneytisstjóri frá Seyðisfirði og tveir menn sem eru hér í salnum í dag. Við vorum að díla við Færeyinga um ferjuna. Oddsskarðsgöng voru bara á teikniborðinu. Það var rætt að ef ferjan ætti að geta átt sér lífdaga yrðu að koma göng. Það áttu að vera styttri göng ofar í heiðinni, þar sem skíðasvæðið er Seyðisfjarðarmegin sem kæmu út í Gilsárdal.

Jóhann Hansson, fyrrum formaður bæjarráðs Seyðisfjarðar:
Ég vil keyra í gegnum göngin 2025. Ég yrði ánægður með að fara í gegnum þau 75 ára. Ég ætla ekki að bíða þar til ég verð 100 ára eins og Stefán Þorleifsson.

Jóhann Sveinbjörnsson, fyrrum bæjarritari Seyðisfirði:
Ég vil þakka samgönguráðherra fyrir kjarkinn og skora á hann að halda honum áfram. Ég er hugsandi út af tímasetningunni. Þetta gæti haft áhrif á sameiningarkosninguna á Seyðisfirði. Ég veit um marga sem vilja setja skilyrði um ákvörðun innan viss tíma til að binda enda á röflið. Ég vona að ég geti keyrt í gegnum þessi göng áður en ég fer í gegnum spíralgöngin.

Jónas Hallgrímsson, fyrrum stjórnarformaður Smyril-Line:
Verði ekki tekin sú tímamóta ákvörðun að fara í þetta sem fyrst eru fleiri valkostir fyrir þá sem reka atvinnustarfsemi á Seyðisfirði. Velvilji Færeyinga hefur verið fyrir hendi en þeir geta ekki beðið endalaust. Það kemur að því að við fáum vetur og ég býð ekki í umferðina þá. Við höfum notið mikils velvilja hjá Vegagerðinni með að greiða fyrir á ferjudögum en það er guðs mildi að ekki hafi orðið slys. Tækifæri Seyðisfjarðar liggur í því að tekin verði ákvörðun og það ekki síðar en á þessu ári.

 

  

  

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.