Saga um geysilega þöggun

„Nú halda mér engin bönd eftir langt hlé í eigin sköpun og útkomu tveggja bóka í ár,“ segir rithöfundurinn Steinunn Ásmundsdóttir, sem var að senda frá sér sína sjöttu bók, skáldævisöguna Manneskjusögu. Fyrra útgáfuhóf bókarinnar verður í Eymundsson í Smáralind í dag klukkan 17:00.


Manneskjusaga er önnur bók Steinunnar á árinu, en í vor gaf Félag ljóðaunnenda á Austurlandi út bók sjötíu ljóða hennar undir bókarheitinu Áratök tímans. Útgefandi Manneskjusögu er Bókaútgáfan Björt sem er hluti af forlagi Bókabeitunnar ehf.

„Manneskjusaga fjallar um lífshlaup konu sem var nokkurra mánaða gömul ættleidd til hjóna í Reykjavík og lenti síðan á fimmtíu ára langri ævi sinni í margvíslegum ósköpum. Sagan gerist á árabilinu 1959-2008 og speglar tíðaranda þessara ára upp að einhverju marki. Frásögnin er um margt afar hráslagaleg þó einnig séu í henni ljósir punktar, heitir reitir og ljóðræna.

Bókin er byggð á raunverulegum atburðum og þeir sviðsettir í hugarheimi höfundar, enda er þetta skáldævisaga. Kveikjan er í rauninni hvernig manneskja getur verið svo átakanlega á skjön við tíðarandann og allt samfélag sitt að það kýs að gleyma henni og láta eins og hún hafi aldrei verið til,“ segir Steinunn.

„Ljóti kallinn“ er tíðarandinn
Efni bókarinnar snertir Steinunni persónulega. „Vissulega var sú kona sem er innblástur minn að þessum bókarskrifum tengd mér fjölskylduböndum. Samhliða því að mér þótti óumflýjanlegt að skrifa sögu hennar og með mínu nefi ef svo má segja, var það mér sár reynsla að skrifa um þetta efni, því hún átti svo erfiðan lífsferil. Ég held þó að saga hennar sé um leið saga margra fleiri og að ýmsir muni geta speglað atburði úr eigin lífi eða fjölskyldusögu í frásögninni. Þetta er fyrst og fremst saga um geysilega þöggun, skilningsleysi, vangetu til að lifa því sem tíðarandinn taldi vera normalt líf en ekki síður vangetu samfélags þess tíma til að hjálpa skaðaðri manneskju. Ég hef gjarnan sagt að „ljóti kallinn“ í sögunni sé kannski fyrst og fremst tíðarandinn sem þá var við lýði.“

Bækurnar rata til sinna
Þó svo að Steinunn sé enginn nýgræðingur í þeim efnum að handleika nýprentaða bók eftir sjálfa sig segir hún þó alltaf fylgja því ákveðnar tilfinningar. „Alltaf er ég jafn feimin og eftirvæntingarfull við hverja bók sem fullgerist, skítnervus við móttökurnar en um leið stolt af því sem ég hef kosið að senda út í kosmosið með þessum hætti og í hjól tímans. Satt að segja held ég að bæði ljóðabækur og bók af því tagi sem Mannskjusaga er rati til sinna, svo ég hef ekki sérstakar áhyggjur af brautargengi þeirra.“

Margt framundan hjá Steinunni
Aðspurð hvort Steinunn sé með eitthvað nýtt á prjónunum segir hún; „ Hugverkavefurinn minn, www.Yrkir.is, birtir jafnt og þétt ný ljóð eftir mig. Ég er búin að leggja frumdrög að nýrri skáldsögu þó ég sé ekki byrjuð að skrifa hana sem slíka. Um miðbik vetrarins ætla ég þó að byrja á að skrifa barnabók, sem eins og Manneskjusaga gerði líka hefur ákveðið mig sem höfund sinn en ekki öfugt.“
Síðara útgáfuhóf Manneskjusögu verður í Bókakaffi í Fellabæ í byrjun nóvember.

Manneskjusaga

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.