Safna undirskriftum til að knýja á um Fjarðarheiðargöng

Bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar hratt í gær af stað undirskriftasöfnun á Seyðisfirði, Egilsstöðum og í Fellabæ til þess að knýja á um að Fjarðarheiðargöng verði færð framar í samgönguáætlun. Undirskriftirnar á að afhenda samgönguráðherra þegar hann kemur austur til að kynna skýrslu um gangakosti til Seyðisfjarðar á miðvikudag.

Undirskrifasöfnunin hófst í gær en það eru iðkendur úr fimleika – og körfuknattleiksdeild Hattar og blakdeild Hugins sem ganga á milli húsa með listanna.

Fjarðarheiðargöng eru fyrirhuguð á síðasta tímabili núverandi samgönguáætlunar sem gildir til 2033. Í texta áskorunarinnar er skorað á stjórnvöld að flýta framkvæmdum til að rjúfa vetrareinangrun Seyðfirðinga, tryggja öryggi ferðalanga og íbúa á Austurlandi og tryggja samgöngur við Evrópu sem byggjast að hluta á ferðum Norrænu.

„Það er í gangi endurskoðun á samgönguáætlun og við eigum von á að hún verði birt í samráðsgátt síðar í ágúst. Við vonumst til að þar verðum við bænheyrð,“ segir Aðalheiður Borgþórsdóttir, bæjarstjóri Seyðisfjarðarkaupstaðar.

Stefnt er að því að afhenda undirskriftalistann þegar Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kemur austur á miðvikudag. „Við höfðum hugsað okkur að fara af stað með þessa söfnun fyrr í sumar en við frestuðum því út af sumarfrí.

Við trúum að þetta sé góður tímapunktur og ætlum að gera þetta hratt og örugglega. Við höfum trú á að við fáum stuðning við þetta mál sem er ótrúlega brýnt,“ segir Aðalheiður.

Tilgangur ferðar ráðherra er meðal annars að kynna niðurstöður starfshóps sem skipaður var síðsumars 2017 til að fara yfir gangakosti til Seyðisfjarðar. Upphaflega átti starfshópurinn að skila af sér fyrir lok þess árs.

RÚV greindi frá því í dag að niðurstaðan væri sú að byrjað yrði að grafa göng undir Fjarðarheiði. Það hefur ekki fengist staðfest og Aðalheiður hafði ekki heyrt neitt frekar þegar Austurfrétt ræddi við hana í dag. „Við bíðum enn eftir niðurstöðunni. Það er skrýtið að heyra af þessu svona þótt tíðindin séu gleðileg ef þau eru sönn.“

Af Fjarðarheiði.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar