Orkumálinn 2024

Safna undirskriftum gegn vindorkuhugmyndum Zephyr í landi Klaustursels

Landvernd hefur hrundið af stað undirskriftasöfnun gegn hugmyndum fyrirtækisins Zephyr Iceland um byggingu stórs vindorkuvers í landi Klaustursels.

Eins og áður hefur verið fjallað um vill íslenskt dótturfyrirtæki norska fyrirtækisins Zephyr reisa allt að 500 MW vindorkuver í landi Klaustursels í Efri-Jökuldal sem er ekki langt frá náttúruperlunni Stuðlagili. Þær hugmyndir voru komnar á rekspöl áður en sveitarstjórn Múlaþings ákvað fyrr í mánuðinum að gefa ekki grænt ljós á slíka uppbyggingu í Múlaþingi fyrr en stefna ríkisvaldsins í þeim málum yrði ljós. Unnið er að stefnumótun í vindorkumálum til framtíðar.

Því framtaki fagnar Tryggvi Felixson, formaður Landverndar, enda sé ljóst að hans mati að eingöngu með yfirsýn ríkisins verði mögulegt að ná einhvers konar sátt um uppbyggingu vindorkuvera í landinu. Slík uppbygging ekki að vera á forræði ríkra stórfyrirtækja sem hugsanlega láta sig samfélagsleg áhrif engu varða.

„Hugmyndin með þessari áskorun er að vekja athygli fólks á því neikvæða sem sannarlega fylgir uppbyggingu slíkra orkuvera á ósnortnum eða lítt snortnum svæðum að stærstu leyti. Slíkar áskoranir höfum við sent út áður með góðum árangri. Í þessu tilfelli bendum við ýmislegt miður sem kannski er ekki mjög þekkt um slík orkumannvirki og þá ekki eingöngu mikil áhrif á náttúru og dýralíf heldur og á margt annað sem kemur fram jafnvel miklu síðar.“

Tryggvi ítrekar að félagið sé ekki á móti vindorkuvirkjunum en þær eigi heima í rammaáætlunum stjórnvalda og sé ekki einkamál erlendra stórfyrirtækja eða smærri sveitarfélaga. Vindorkuver hafi áhrif á fjölmarga aðra en eingöngu íbúa á tilteknum svæðum sem hugsanlega eru hlynnt slíkum áætlunum.

Landvernd áætlar svo að tveimur mánuðum liðnum að afhenda sveitarstjóra Múlaþings og forsvarsmönnum Zephyr Iceland áskoranir þeirra sem undir listann skrifa.

Kort af staðsetningu vindorkuvers Zephyr í landi Klaustursels. Mynd Zephyr/Mannvit

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.