Rýmingu aflétt að hluta

Rýmingu hefur verið aflétt á fjórum húsum af níu sem rýmd voru vegna skriðuhættu á Seyðisfirði fyrir viku.

Ákvörðunin var tekin eftir útreikninga á virkni leiðigarða og safnþróar við Búðará. Jarðvegsfleki, sem talinn er vera allt að 20.000 rúmmetrar að stærð hefur verið á hreyfingu þar í rúma viku.

Í tilkynningu almannavarna segir að allar líkur séu á að varnargarðar myndu taka á móti flekanum og leiða til sjávar, þótt hann færi allur af stað í einu.

Þar sem enn mælist hreyfing á hryggnum verður áfram rýming á húsunum næst varnargarðinum. Það eru hús 5 og 7 við Fossgötu og 10, 16b og 18c við Hafnargötu. Rýmingu er því aflétt í fjórum húsum.

Hættustig er áfram í gildi á Seyðisfirð, óviðkomandi umferð um skriðusvæðið bönnuð og um göngustíga meðfram Búðará eða annars staðar þar sem varnargarðar beina skriðustraumnum. Engar hreyfingar hafa mælst annars staðar í hlíðinni.

Upplýsingafundur fyrir íbúa, með fulltrúum Veðurstofu, Múlaþings og almannavarna hefst í Herðubreið klukkan 18:00. Búið er að hafa samband við íbúa í húsunum næst Búðaránni.

Fjöldahjálparmiðstöðin þar verður opin milli klukkan 14 og 16 á morgun. Íbúar í húsum sem áfram eru rýmd geta komið þangað og hugað að húsum sínum undir eftirliti í skamma stund. Ákvörðun um slíka heimild verður endurmetin eftir morgundaginn og niðurstaðan þá kynnt.

Minnt er á Hjálparsíma Rauða krossins 1717.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.