Rýma öll hús við Botnahlíð í varúðarskyni

Ákveðið hefur verið að rýma öll hús við Botnahlíð á Seyðisfirði auk húsa við gamla Austurveg og tveggja húsa við Múlaveg og Baugsveg vegna úrkomuspár um helgina. Rýmingin gildir til sunnudags en staðan verður þá metin að nýju.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum. Búið á að vera rýma húsin klukkan 22 í kvöld.

Veðurstofan gaf í gær út gula viðvörun vegna úrkomunnar sem var hækkuð í appelsínugula viðvörun seinni partinn í dag. Hún gildir frá klukkan 23 í kvöld fram til klukkan 18 á morgun. Á þeim tíma er búist við 45 mm uppsafnaðri úrkomu á Seyðisfirði.

Um kvöldmat byrjar að rigna en ákefðin eykst skömmu eftir miðnætti og stendur fram undir kvöldmat á morgun. Áfram er búist við úrkomu fram á sunnudag en mun minni.

Í tilkynningu segir að vel sé fylgst með öllum hreyfingum í hlíðinni ofan Seyðisfjarðar. Stöðugleiki þar hefur aukist eftir skriðurnar um miðjan desember en með hliðsjón af úrkomuspánni er talið rétt að rýma húsin í varúðarskyni, þar sem enn sé óvissa stöðugleika í Botnabrún og viðbrögð jarðlaga þar við mikilli rigningu.

Þar kemur ennfremur fram að reiknað sé með að rýming vegna skriðuhættu á Seyðisfirði verði lögð til á næstu vikum í ákveðnum skrefum, eftir því sem meiri reynsla fæst á stöðugleika hlíðarinnar. Sú reynsla fáist með að fylgjast með hvernig jarðlög bregðast við úrkomu í kjölfar nýafstaðinnar skriðuhrinu. Því verður í fyrstu rýmt við minni úrkomu en vænta má að verði síðar.

Fyrirkomulag við rýmingu verður eftirfarandi og mikilvægt er að allir sem yfirgefa bæinn í kjölfar beiðni um rýmingu skrái sig með eftirfarandi hætti:

Mæting í fjöldahjálparstöðina (þjónustumiðstöð) í Herðubreið ef húsnæði vantar, akstur til Egilsstaða eða aðra aðstoð. Hringið í 1717 ef þið hafið annan samastað og ætlið að fara sjálf út úr bænum eða í annað húsnæði á Seyðisfirði. Nauðsynlegt er að allir skrái sig um leið og húsnæði er rýmt.

Fjöldahjálparstöðin verður opin yfir helgina eins og þörf þykir. Þjónustumiðstöð almannavarna verður áfram opin í Herðubreið á Seyðisfirði í næstu viku en einnig er hægt að senda inn fyrirspurnir á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og hringja í 839 9931 utan opnunartíma.

Húsin sem um ræðir eru:

Öll hús við Botnahlíð
Múlavegur 37
Baugsvegur 5
Austurvegur 36, 38a, 40b, 42, 44, 44b, 46, 46b, 48, 50, 52, 54 og 56

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.