Rúnar Gunnarsson leiðir Miðflokkinn í Fjarðabyggð

Norðfirðingurinn Rúnar Gunnarsson mun leiða framboð Miðflokksins í Fjarðabyggð í sveitarstjórnarkosningunum í vor.

Þetta var tilkynnt að loknum stofnfundi Miðflokksfélags Fjarðabyggðar á Reyðarfirði á laugardag. Á fundinum var samþykkt að flokkurinn byði fram í sveitarfélaginu og Rúnar myndi leiða listann.

Rúnar er fæddur og uppalinn á Norðfirði og býr þar ásamt eiginkonu sinni Aldísi Stefánsdóttur, en þau eiga 4 börn og 6 barnabörn.

Rúnar hefur áratuga reynslu af rekstri, en hann keypti fyrirtæki í flutningaþjónustu árið 1979 og byggði það upp þar til hann seldi Eimskip það árið 1999. Hann hefur rekið flutningaþjónustu Eimskips á Austurlandi síðan.

Í tilkynningu segir að Rúnar leggi mikla áherslu á að vinna að betri sameiningu fólksins í Fjarðabyggð til að styrkja samfélagið í heild, og að rýna í fjármál og starfsmannamál sveitarfélagsins með það í huga að auka nýtni fjármagnsins gagnvart núverandi íbúum.

Önnur nöfn á framboðslistann hafa ekki verið staðfest en í frétt félagsins af fundinum segir að Guðmundur Þorgrímsson, fyrrum oddviti Austurbyggðar, verði í baráttusæti.

Stjórn Miðflokksfélags Fjarðabyggðar ásamt oddvita og þingmönnum flokksins í kjördæminu. Frá vinstri: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Guðmundur Þorgrímsson, Lára Eiríksdóttir, Rúnar Gunnarsson, Anna Kolbrún Árnadóttir og Árni Björn Guðmundsson. Mynd: Miðflokkurinn

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar