Rúmur 1,1 milljarður í meðgjöf með sameiningu

Fjögur sveitarfélög á Austurlandi, þar sem íbúar kjósa um sameiningu í lok næsta mánaðar, gætu fengið 1,1 milljarða króna frá ríkinu til að styrkja nýtt sveitarfélag verði af sameiningu.

Þetta kemur fram í tillögum samgönguráðherra um nýjar reglur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um stuðning við sameiningar sem birtar voru í samráðsgátt stjórnvalda í byrjun vikunnar.

Þar er að finna sundurliðun á upphæðum sem hvert sveitarfélag í landinu fengi við sameiningu. Samkvæmt þeim fást 1,129 milljarður króna ef af sameiningu Borgarfjarðarhrepps, Fljótsdalshéraðs, Djúpavogshrepps og Seyðisfjarðarkaupstaðar verður í haust.

Framlag Jöfnunarsjóðs byggist á þremur atriðum. Í fyrsta lagi er skuldajöfnunarframlag, ætlað til að ná niður skuldum sveitarfélaga. Í öðru lagi er fast framlag upp á 100 milljónir til hvers einasta sveitarfélags til að kosta endurskipulagningu þjónustu og stjórnsýslu.

Að lokum er sérstakt byggðaframlag til sveitarfélaga þar sem fjölgun íbúa hefur ekki fylgt árlegri meðalfjölgun yfir landið. Sé sveitarfélagið undir hlutfallslegri meðalfjölgun síðustu fimm ára er greidd hálf milljón króna fyrir hvern íbúa sem upp á vantar, að hámarki 200 milljónir.

Af sveitarfélögunum fjórum sem nú skoða sameiningu fylgir mest fé Fljótsdalshéraði, alls 598 milljónir, þar af 400 milljónir í skuldajöfnunarframlag og 98 milljónir í byggðaframlag.

Minnst fé fylgir Borgarfjarðarhreppi sem fær aðeins fasta framlagið og 19 milljónir í byggðaframlag þar sem skuldir sveitarfélagsins eru engar. Djúpavogshreppi fylgja samtals 243 milljónir, 121 milljón í skuldajöfnun og 22 milljónir í byggðaframlag. Það er jafn hátt hjá Seyðisfirði en skuldaframlagið 47 milljónir og heildarupphæðin 169 milljónir.

Fjarðabyggð fengu 620 milljónir ef framundan væri sameining, 400 milljónir í skuldajöfnun og 120 milljónir í byggðaframlag. Vopnafjarðarhreppur fengu 243 milljónir, 141 milljón í skuldajöfnun og 22 milljónir í byggðaframlag. Fljótsdalshreppur fengi einungis fasta framlagið, 100 milljónir.

Hugmyndir ráðherra er hluti af aðgerðum sem ætlað er til að liðka fyrir sameiningum sveitarfélaga, en hann hefur nýverið kynnt hugmyndir um að lágmarksstærð sveitarfélaga verði lögfest, 250 íbúar árið 2022 og 1000 íbúar 2026. Alls eru ætlaðar 15 milljarðar í sameiningar í gegnum Jöfnunarsjóð á næstu 15 árum. Sveitarfélögin fá framlagið greitt á sjö árum frá sameiningu.

Frá fundi um mögulega sameiningu á Borgarfirði í vor. Mynd: Magnús Þorri Jökulsson

Í fyrstu útgáfu fréttarinnar var ranglega reiknað að upphæðin væri 1,229 milljarðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.