Þrír sviðsstjórar hættir hjá Fljótsdalshéraði

baejarskrifstofur_egilsstodum_3.jpgÞrír sviðsstjórar hjá Fljótsdalshéraði sögðu upp störfum fyrir lok júnímánaðar. Minnihlutinn segir dýrmæta reynslu og þekkingu hverfa með lykilstarfsmönnunum. Boðuð hagræðing nýs meirihluta í stjórnsýslunni hafi skapað óöryggi um störfin. Meirihlutinn segir ekki hægt að undanskilja stjórnsýsluna í aðgerðum sem grípa þurfi til vegna skuldastöðu sveitarfélagsins.

 

Starfsmennirnir eru Óðinn Gunnar Óðinsson, þróunarstjóri, Eggert Sigtryggsson, fasteignafulltrúi og Kristín Þorsteinsdóttir, félagsmálastjóri.

Í bókun minnihlutans í bæjarráði segir að óvissa um starfsöryggi og umhverfi fylgi boðaðri hagræðingu meirihlutans í stjórnsýslu sveitarfélagsins. Þau skilaboð hafi mátt túlka sem kjör starfsmanna væru mjög góð og þeir of margir.

Staðreyndin sé sú að samanburðargögn sýni að kostnaður við stjórnsýslu sveitarfélagsins sé áþekkur, eða lægri, en gerist hjá sambærilegum sveitarfélögum. Óraunhæfar væntingar hafi verið vaktar hjá íbúum sveitarfélagsins um ávinning af hagræðinu. Dýrmæt reynsla og þekking glatist með sviðsstjórunum þremur sem hætta, auk bæjarstjórans.

„Þá hefur í umræðunni í samfélaginu verið vegið verulega að heiðri þessara sömu starfsmanna og stjórnsýslunnar í heild sbr. umræður í tengslum við villandi frétt um starfslok bæjarstjóra sem birtist á vefmiðlinum agl.is,“ segir í bókun Sigrúnar Blöndal og Guðmundar Ólafssonar.

Þau krefjast þess að meirihlutinn skýri sem fyrst frá væntingum sínum og áformum um hagræðingu og skipulagsbreytingar í stjórnsýslunni. Aðeins þannig verði endurheimt það traust sem hafi glatast á stjórnsýslunni og komið í veg fyrir frekari uppsagnir starfsmanna.

Í bókun meirihlutans segir að stjórnsýsla sveitarfélagsins geti ekki verið aðskilin hagræðingaraðgerðum í ljósi skuldastöðu sveitarfélagins og breyttra aðstæðna í samfélagi og efnahagslífi. Það verði að gera óháð samanburði við önnur sveitarfélög.

Við þessa endurskipulagningu á að leita samvinnu við starfsfólk sveitarfélagsins. Ráðning nýs bæjarstjóra, sem tilkynnt var í gær, sé fyrsta skrefið í þá átt. Með honum verði stjórnskipulagið og mögulegar breytingar skoðaðar.

„Það mun ekki standa á meirihluta bæjarstjórnar að leggja í þá vinnu hratt og örugglega til að skapa sem best starfsskilyrði fyrir starfsfólk sveitarfélagsins og til að tryggja íbúum sem besta þjónustu til framtíðar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.