Ríkisendurskoðun stendur við skýrsluna um Hannes lækni

hannes_sigmarsson_jpg_280x800_q95.jpg
Ekkert hefur komið fram sem gefur tilefni til að endurskoða niðurstöður sem settar eru fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um embættisfærslur Hannesar Sigmarssonar, fyrrverandi yfirlæknis í Fjarðabyggð. Vinnubrögð við skýrsluna voru í samræmi við reglur og heimildir stofnunarinnar.

„Það hefur ekkert komið fram sem gefur ástæðu til að endurskoða fyrri athuganir og niðurstöður Ríkisendurskoðunar vegna þessa máls,“ segir í skriflegu svari stofnunarinnar við spurningum Agl.is um vinnu við skýrsluna.

Skýrslan hefur ekki verið gerð opinber en héraðsfréttablaðið Austurglugginn hefur hana undir höndum og hefur fjallað um innihald hennar. Í niðurstöðum hennar segir að Hannes hafi ofreiknað sér laun og sýnt „einbeittan vilja“ við að smyrja á reikninga sína. Hann hafi meðal annars rukkað fyrir endurlífgun sem aldrei fór fram.

Málinu var skotið til lögreglunnar á Eskfiriði sem taldi ekki efni til að gefa út ákæru. Hannesi var vikið úr starfi tímabundið meðan það var til meðferðar og sagt upp þrátt fyrir að hann væri ekki ákærður.

Hannes hefur gagnrýnt að hann hafi ekki fengið að koma á framfæri athugasemdum sínum við skýrsluna þegar hún var skrifuð. Í svari Ríkisendurskoðunar segir að stofnunin sé ekki stjórnvald, taki ekki stjórnvaldsákvarðanir og stjórnsýslulög eigi ekki við, þótt þau séu gjarnan höfð til hliðsjónar í starfinu.

„Með vísan til sérstaks eðlis hérumræddra skoðunarverkefna, stöðu og hlutverks stofnunarinnar sem fjárhagsendurskoðanda og eftir atvikum með hliðsjón af 3. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga hefur hún á hinn bóginn ekki talið eðlilegt að kalla eftir athugasemdum þeirra, sem athuganir af þessu tagi kunna að tengjast hverju sinni, heldur hefur verið litið svo á að viðkomandi stjórnendur eigi að taka ákvarðanir þar um. Rétt er að taka fram í þessu sambandi að skýra ber meginreglu stjórnsýslulaga um andmælarétt til samræmis við reglurnar um aðgang að gögnum.“

Ríkisendurskoðun reikninga Heilbrigðisstofnunar Austurlands og hefur víðtækar heimildir til að ganga úr skugga að þeir séu réttir. Stofnunin ákveður hvar og hvernig sé endurskoðað.
 
„Á sama hátt getur hún í lögbundnu hlutverki sínu sem endurskoðandi skoðað frumgögn, sem færð eru samhliða reikningsgerð á hendur ríkinu, í því skyni að sannreyna efni innsendra reikninga og greiðsluskyldu ríkissjóðs. Niðurstöður athugana sinna í þessu efni kynnir hún fyrst og fremst stjórnendum viðkomandi stofnunar og viðkomandi fagráðuneyti enda þessara aðila að taka afstöðu til þeirra og ákveða hvort og hvernig við þeim verði brugðist.“

Hannes hefur höfðað mál gegn HSA og forstjóra hennar fyrir ólögmætan brottrekstur og meiðyrði. Aðalmeðferð málsins fer fram í héraðsdómu Austurlands 10. maí.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.