Risaskriða féll í Hamarsfirði - Myndir

Stór skriða olli miklu tjóni á búfénaði og ræktarlandi í Hamarsfirði í dag. Ríkislögreglustjóri í samráði við Lögreglustjórann á Austurlandi lýsti í kvöld yfir óvissustigi almannavarna í fjórðungnum vegna úrkomu og vatnavaxta.

Óttast er að tugir fjár hafi farist þegar stór skriða féll við bæinn Hamarsel í morgun. Björgunarsveitarmenn frá Djúpavogi voru fram eftir degi að reyna að bjarga fé úr skriðunni við erfiðar aðstæður.

Áætlað er að á þriðja tug kinda hafi verið komið úr skriðunni en ástand þeirra er misjafnt. Ljóst er að tjónið af skriðunni er mikið, bæði út af þeim kindum sem urðu undir henni en ekki síður þar sem hún fór yfir stóran hluta af túnum bæjarins.

Skriðan er fleiri hundruð metrar á breidd þar niðri og byrjar ofarlega í fjallinu. Ljóst er að hún hefur farið af stað af miklum krafti því hún fellur fyrst niður á flata sem minni spýjur hefðu stoppað á.

Heimamenn muna ekki eftir annarri eins skriðu á svæðinu. Viðbragðsaðilar voru á ferðinni á svæðinu seinni partinn í dag meðal annars til að meta hættu á frekari skriðuföllum.

Þeir fengu til þess ágætis veður en rigningunni slotaði upp úr klukkan tvö. Næsta lægð er þó handan við hornið og er búist við að aftur byrji að rigna í nótt.

Í kvöld var lýst yfir óvissustigi almannavarna á Austurlandi en það þýðir aukið eftirlit með atburðarás sem á síðari stigum getur ógnað heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar.

Spáð er rigningu áfram næstu daga. Við þær aðstæður sem myndast hafa getur jarðvegur orðið gegnsósa sem eykur líkur á skriðum, jafnvel utan hefðbundinna skriðusvæða.

Við þessar aðstæður getur jarðvegur orðið gegnsósa sem eykur líkur á skriðum, jafnvel utan hefðbundinna skriðusvæða. Fylgst verður vel með aðstæðum og gerðar ráðstafanir ef þörf þykir. Íbúar eru beðnir um að fylgjast með með fréttum og tilkynningum frá almannavörnum.

Myndir: Eiður og Ingi Ragnarssyni og Landsbjörg.

Hamarssel 20170928 141034 Web
Hamarssel 20170928 142152 Web
Hamarssel 20170928 165852 Web
Hamarssel 20170928 180329 Web
Hamarssel 20170928 181254 Web
Hamarssel 20170928 182631 Web
Hamarssel 20170928 182802 Web
Hamarssel Bjorgun Web


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar