Íslenska ríkið vill selja Gamla ríkið

Húsið að Hafnargötu 11 á Seyðisfirði, oft þekkt sem „Gamla ríkið“ er meðal þeirra bygginga sem íslenska ríkið hefur í hyggja að selja á næstunni. Þetta kemur fram í drögum að fjárlögum næsta árs.

Samkvæmt frumvarpinu sem liggur fyrir Alþingi stendur til að selja húsið til endurnýjunar. Ytra birði þess og verslunarinnréttingar á fyrstu hæð voru friðaðar árið 2009 af þáverandi menntamálaráðherra og núverandi forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur.

Á vef Minjastofnunar kemur fram að húsið hafi verið byggt sem verslunarhús árið 1918. Innréttingarnar voru fengnar úr verslun Konráðs Hjálmarssonar í Mjóafirði, sem reist var þar skömmu fyrir aldamótin 1900. Bæði húsið og innréttingarnar hafi varðveist nær óbreytt, sem sé einsæmi á Íslandi.

Fleiri byggingar á Austurlandi eru á sölulista í frumvarpinu. Þannig er heimild fyrir sölu íbúðar í fjölbýlishúsinu að Hamrabakka 10 á Seyðisfirði, sem verið hefur í umsjá Heilbrigðisstofnunar Austurlands og verslunar- og þjónustuhúsnæði að Hafnarbraut 1 í Neskaupstað.

Lagt er til að þrjár jarðir verði seldar eða leigðar. Unaós-Heyskálar á Héraði, Skriðustekkur í Breiðdal og eyðijörðina Hól 1 í Fjarðabyggð.

Óskað er eftir heimild til að selja á markaði eða semja við Fjarðabyggð um ráðstöfun á flugstöðinni á Norðfirði. Eins og Austurfrétt greindi frá í gær hefur Flugfélag Austurlands hug á að koma sér upp bækistöð á vellinum.

Lagt er til að ríkið selji hlut sinn í Sparisjóði Austurlands. Það er stærsti einstaki hluthafinn með 49,5% og í Vísindagarðinum ehf. á Fljótsdalshéraði.

Að endingu er í frumvarpinu heimild til að selja húsnæði dómstóla, lögreglu- og sýslumannsembætta og kaupa eða leigja annað hentugra húsnæði í tengslum við endurskipulagningu starfseminnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.