Ríkið tryggir flugsamgöngur við Egilsstaði

Íslenska ríkið hefur samið við Air Iceland Connect til að tryggja flug til Egilsstað á meðan núverandi samkomubanni stendur. Flogið verður þrisvar til sex sinnum í viku. Samningnum er meðal annars ætlað að tryggja greið samskipti fyrir heilbrigðisþjónustu.

Innanlandsflug hefur dregist verulega saman vegna útbreiðslu covid-19 veirunnar. Þannig fækkaði flugfélagið ferðum sínum milli Egilsstaða og Reykjavíkur í eina á dag um miðjan mánuðinn og samkvæmt tilkynningu samgönguráðuneytisins hefði flugið að óbreyttu lagst af.

Samningurinn tók gildi í gær og gildir til 4. maí. Honum er ætlað að tryggja flugsamgöngur á tímabili þar sem ekki eru markaðslegar forsendur til að halda því gangandi. Ríkið greiðir að hámarki 13 milljónir króna fyrir þjónustuna, en tekjur af sölu farmiða lækka greiðslurnar. Flugfélaginu er heimilt að annast vöruflutninga í ferðunum.

Tryggðar verða 3-6 ferðir í viku milli Egilsstaða og Reykjavíkur. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu er ekki búið að fastmóta flugáætlun en það er í höndum flugfélagsins. Ferðatíðnin veltur meðal annars á þörf, en samningurinn á að tryggja að lyf úr sýnatöku vegna veirunnar sem og lyf eða aðrar nauðsynjavörur skili sér milli landshluta með skjótum hætti ef á þarf að halda.

„Innanlandsflug gegnir afar mikilvægu hlutverki fyrir íbúa landsbyggðarinnar og fá svæði verða fyrir meiri skaða af niðurfellingu flugs en norðanverðir Vestfirðir og Austurland. Á þessum svæðum er ekki val um almenningssamgöngur til og frá höfuðborgarsvæðinu,“ er haft eftir Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í tilkynningu.

Samningurinn er að miklu leyti sambærilegur og sá sem í gildi hefur verið við Icelandair, móðurfélags Air Iceland Connect, um flugþjónustu til og frá landinu. Gerð var verðkönnun hjá þremur flugrekendum áður en gengið var frá samningnum. Um leið var samið við félagið um flug til Ísafjarðar en þangað verða farnar þrjár ferðir á viku.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.