Ríkið styrkir minnismerki um Hans Jónatan

Íslenska ríkið hefur ákveðið að styrkja sveitarstjórn Múlaþings um þrjár milljónir króna til kaupa á minnismerki um Hans Jónatan, danskan þræl sem leitaði frelsis á Íslandi. Unnið er að því að koma minnisvarðanum upp í sumar.

Ríkisstjórnin staðfesti fjárveitinguna á fundi sínum í morgun. Til stendur að setja listaverkið „Frelsi“ eftir listamanninn Sigurð Guðmundsson, sem hefur verið mikið á Djúpavogi, upp þar.

Áætlaður heildarkostnaður við kaupin er sex milljónir króna. Í samþykkt byggðaráðs Múlaþings var gert ráð fyrir fjórum milljónum frá forsætisráðuneytinu og tveimur milljónum frá laxeldisfyrirtæki, sem styrkir framtakið. Sveitarfélagið sér um undirstöður og frágang.

Vinna stendur yfir við að finna verkinu hentugan stað og hefur þar helst verið rætt um svokallaðan „Kallabakka“, sem er við innanverðan Voginn á Djúpavogi að ofanverðu, steinsnar frá Geysi þar sem skrifstofur Múlaþings eru. Á síðasta fundi heimastjórnar Djúpavogshrepps var hvatt til þess að deiliskipulag svæðisins yrði klárað sem fyrst þannig minnismerkið komist upp í sumar.

Hans Jónatan (1784–1827) var hörundsdökkur þræll sem fæddist á St. Croix í Karíbahafi. Hann settist að á Djúpavogi árið 1802 og giftist Katrínu Antoníusdóttur frá Hálsi. Afkomendur þeirra í dag erum um 1000 talsins. Hann var verslunarstjóri hjá Ørum og Wulff á Djúpavogi 1818–1827.

Gerð var kvikmynd um ævi Hans Jónatans fyrir nokkrum árum sem byggð var á var bók Gísla Pálssonar mannfræðings „Maðurinn sem stal sjálfum sér.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.