Rigningin í gær breytti ekki miklu

Rigning á Austurlandi í gær virðist litlu hafa breytt um stöðuna eftir langvarandi þurrka í fjórðungnum. Vatnsból þéttbýlisstaða virðast í lagi en til sveita hefur víða orðið vatnslaust.

„Ég held þetta hafi litlu breytt. Vandinn er svo mikill og uppsafnaður fyrir utan að rigningin var mjög kaflaskipt,“ segir Aðalsteinn Þórhallsson, framkvæmdastjóri HEF, sem heldur utan um veitumál í Múlaþingi.

Hann segir vatnsból þéttbýlisstaða flest í góðu lagi. Þó hefur því verið beint til notenda á Borgarfirði að fara sparlega með vatn en vísbendingar eru að vatnsstaðan fari lækkandi í vatnsbólum ofan byggðarinnar. Annars staðar í þéttbýli er staðan fín.

Staðan er verri til sveita. Verið er að skoða hvort vatn verði keyrt til bænda og ferðaþjónustubæja. Boðið hefur verið upp á að sækja vatn í borholur við Urriðavatn. Aðalsteinn segir ekki marga hafa nýtt það boð en nokkra af þeim allra verst settu.

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar segir að vatnsmál í þéttbýli séu þar alls staðar í lagi. Áhyggjur séu af vatnsveitum bænda en engar ábendingar hafi borist um að neins staðar sé vatnslaust. Sveitarfélagið vilji gjarnan fá ábendingar ef svo sé þannig hægt sé að grípa til aðgerða.

„Staðan er slæm, það hefur orðið vatnslaust á fjölmörgum bæjum. Þetta er samt vandamál sem Fljótsdælingar þekkja þannig hver og einn bregst við eftir sínum aðstæðum,“ segir Helgi Gíslason, sveitarstjóri Fljótsdalshrepps. Ekki hafi verið leitað sérstaklega til sveitarstjórnar en staðan verði þó rædd á fundi hennar á föstudag.

Hann kveðst vita til þess að einhverjir bændur séu farnir að huga að því að bora eftir vatni á næstu misserum til að bæta vatnsból sín til framtíðar.

Þá segir Helgi að áhyggjur hafi verið af skógareldum. Hættan sé þó lítil þar sem undirgróður sé enn grænn en meiri þar sem hann hefur fölnað, svo sem í greni- og furuskógum. Hann vonast til að rigning í dag og í gær hafi heldur dregið úr hættunni.Áfram er spáð þurru veðri eystra, að minnsta kosti til sunnudags.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.