Mikil rigning Austanlands en engin rýming fyrirhuguð á Seyðisfirði

Duglega hefur rignt á Austurlandi öllu þennan daginn og spár gera ráð fyrir áframhaldandi regni fram á morgundag. Ekki þykir þó ástæða til rýmingar húsa á Seyðisfirði.

Almannavarnir héldu fund síðdegis vegna málsins með aðkomu Veðurstofu Íslands og Múlaþingi en samkvæmt spám geta allt að 70 millimetrar bæst við þá 40 millimetra af úrkomu sem þegar hefur rignt yfir Seyðisfjörð til morguns.

Á fundinum kom fram að speglar Veðurstofunnar hafi ekki mælt neina hreyfingu í hlíðum ofan fjarðarins þrátt fyrir drjúga ofankomu og því telja Almannavarnir ekki ástæða til aðgerða að svo komnu máli. Sólarhringsúrkoma sé ekki umfram það sem hlíðir bæjarins hafa tekið við áður vandræðalaust.

Tekið fram að ef aukin hreyfing mælist á hryggnum milli skriðusársins frá í desember og Búðarár sem gefur til kynna að hann gæti farið af stað verður umferð neðan við skriðufarveginn, á Hafnargötu við Búðará, stöðvuð í öryggisskyni. GPS-mælar sýna enn sem komið er ekki marktæka hreyfingu.

Þó ekki sé talið líklegt að allur hryggurinn fari í einu þá munu, gefi mælar vísbendingar um slíkt, fimm efstu húsin við leiðigarðana rýmd að nýju. Útreikningar sýna engu að síður að allar líkur eru á að varnargarðar og safnþró leiði allt efnið til sjávar og án þess að valda tjóni á mannvirkjum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.