Ríflega 30 milljóna tap hjá Vopnafjarðarhreppi

Ríflega 32 milljóna tap varð á rekstri Vopnafjarðarhrepps í fyrra. Skuldir sveitarfélagsins lækka lítillega milli ára.

Síðari umræða um ársreikninginn var tekin á fundi sveitarstjórnar í gær.

Tekjur sveitarfélagsins voru tæpir 1,33 milljarður, þarf 890,4 milljónir í A-hluta, sem lýst er sem reglubundnum verkefnum sem fjármögnuð eru með skatttekjum. Í B-hluta eru verkefni fjármögnuð með sértekjum.

Gjöldin námu alls 1,25 milljörðum, þar af 956 milljónum í A-hluta. Útsvar og skattar voru um 65 milljónum hærri en áætlað var og aðrar tekjur 70 milljónum. Á móti eru laun 65 milljónum yfir áætlun í A-hluta og 90 í samstæðu. Annar rekstrarkostnaður er 40 milljónum yfir miðað við áætlun í A hluta en 20 í heildina.

Niðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsgjöld var neikvæð upp á 65,7 milljónir í A-hluta en jákvæð um tæpar 76 milljónir í heildina. Þegar afskriftir og fjármagnsliðir hafa verið teknir með er niðurstaðan tæplega 115 milljóna tap í A-hluta og 32,3 milljónir í heildina.

Í áætlun var reiknað með 86 milljóna tapi á A-hlutanum og 60 milljónir í heildina. Þetta er þó betri afkoma en í fyrra þegar 67 milljóna tap varð hjá samstæðunni, þar af um 197 milljónir í A-hluta.

Skuldir sveitarfélagsins eru 1,4 milljarðar í A-hluta og rúmir 1,9 milljarðar í samstæðu. Eignir eru þær sömu. Skuldahlutfall Vopnafjarðarhrepps er 78% í heildina en 110% hjá A-hluta. Í bókun hreppsnefndar frá í gær segir að skuldastaðan sé góð.

Veltufé frá rekstri er neikvætt um rúmar 54 milljónir í A-hluta en jákvætt um 47,5 milljónir í heildina. Stöðugildum og ársverkum fjölgar um níu milli ára en starfsmönnum um tvo og eru 91. Launakostnaður sveitarstjóra og sveitarstjórnar lækkar um 11 milljónir.

Fræðslu- og uppeldismál eru langstærsti gjaldaliðurinn, 461 milljón eða tæp 63% skatttekna. Í B-hluta kemur hafnarsjóðurinn áberandi best út, af honum er 73 milljóna hagnaður. Við fyrri umræðu um ársreikninginn var samþykkt að færa halla af rekstri hjúkrunarheimilisins Sundabúðar upp á 39,7 milljónir sem framlög til heilbrigðismála.

Í bókuninni frá í gær kemur fram að sveitarfélagið hafi þurft að greiða með rekstrinum þar sem framlög ríkisins hafi ekki dugað til undanfarin ár. Þar er einnig komið inn á áhrif Covid-faraldursins sem er ekki sagður hafa haft veruleg fjárhagsleg áhrif á sveitarfélagið en birst í breytingu á veitingu þjónustu, svo sem skólastarfi og auknum forföllum starfsfólks.

Í fyrstu útgáfu fréttarinnar sagði að skuldahlutfallið hefði verið 110%. Það er hlutfallið í A-hlutanum eingöngu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.