Rífandi gangur á loðnumiðunum

Afar góð loðnuveiði er á miðunum þessa stundina og eru skipin búin að vera að fá góð hol í nótt. Manneldisvinnsla hófst í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað í gær og var þá frystur afli úr Vilhelm Þorsteinssyni EA. Enn er verið að frysta úr Vilhelm en Hákon EA er kominn til hafnar með frystingarloðnu og síðan kemur Bjarni Ólafsson AK í kjölfar hans.

Þetta kemur fram á vefsíðu Síldarvinnslunnar. Þar segir að Barði NK fyllti í gærkvöldi og er á leið á Akranes með aflann. Polar Amaroq fyllti í tveimur holum og er einnig á landleið.

Beitir NK og Polar Ammasak eru á miðunum og er jafnvel líklegt að þau skip sigli með aflann. Þá hefur Börkur NK hafið veiðar á ný eftir að hafa lokið mettúr. Sem dæmi um veiðina eins og hún er nú þá fékk Beitir 780 tonn í hádeginu í gær eftir að hafa einungis togað í um klukkustund.

„Hún leggst vel í mig. Vinnsla hjá okkur hófst í gær og það er verið að keyra allt í gang,“ segir Jón Gunnar Sigurjónsson, yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu í Neskaupstað í samtali á vefsíðunni aðspurður um hvernig vertíðin legðist í hann.

„Nú er svo sannarlega nóg hráefni en það tekur alltaf dálítinn tíma í upphafi vertíðar að fá allt til að snúast eðlilega. Við hófum að frysta úr Vilhelm Þorsteinssyni í gær og síðan verður fryst úr Hákoni og Bjarna Ólafssyni. Loðnan hefur verið frekar smá en vitað er að hún er stærri í Bjarna Ólafssyni.

Það tekur alltaf svolítinn tíma í upphafi vertíðar að slípa allt saman í framleiðsluferlinu en þetta fer vel af stað. Í fiskiðjuverinu er unnið á þremur vöktum og eru 22 starfsmenn á hverri vakt. Hér búa menn sig undir hörkuvertíð. Helsta áhyggjuefnið nú um stundir er covid.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.