Ráðherra: Grimmileg inngrip í austfirska náttúru hafa áhrif um ókomna tíð

svandis_svavarsdottir.jpgSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, vill skoða forsendur þess að forveri hennar í embætti snéri við úrskurði Skipulagsstofnunar og heimilaði byggingu Kárahnjúkavirkjunar á sínum tíma. Ráðherrann hefur áhyggjur af bæði lífríki og landbroti.

 

Þetta kom fram í máli Svandísar í fyrirspurnartíma á Alþingi í gær. Undanfarna daga hefur talsvert verið rætt um vísbendingar um hnignandi fiskbúskap í Lagarfljóti en eins og Agl.is greindi frá fyrstur fjölmiðla virðist aukið grugg með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar skaða lífríkið þar. Ráðherrann þáverandi, Siv Friðleifsdóttir, virtist, ólíkt stofnuninni, ekki hafa áhyggjur af því að aukinn svifaur í fljótinu skaðaði lífríkið þar verulega.

Svandís lýsti virkjuninni sem alvarlegustu táknmynd yfirgangs stóriðjustefnunnar á Íslandi. „Skoða þyrfti í mjög víðu samhengi hvernig stóriðjustefnan valtaði yfir skynsemi og niðurstöður af ýmsu tagi en kannski ekki síst það sem hér er dregið fram. Þáverandi virðulegur umhverfisráðherra var partur af þeim mjög svo skýra pólitíska vilja sem þá réði ríkjum og leiddi ákvarðanir fram óháð þekkingu, óháð upplýsingum til þeirrar niðurstöðu sem pólitíkin hafði tekið ákvörðun um að skyldi fyrir liggja.“

Svandís lýsti vilja sínum til að skoða fleiri áhrif á vatnasvið svæðisins í heild og nefndi þar sérstaklega landbrot meðfram Lagarfljóti og velti því upp að stækkun Lagarfossvirkjunar hefði þar einnig haft áhrif.

„Landbrot sjávar í Héraðsflóa eftir að framburður jökla var fluttur í Lagarfljót er líka eitthvað sem þarf skoðunar við. Þessi grimmilegu inngrip í náttúruna fyrir austan eiga eftir að hafa áhrif á lífríkið um ókomna tíð og það þarf svo sannarlega að vera á vaktinni gagnvart því.“

Það var Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sem lagði fram fyrirspurnina í gær. Hann og Svandís eru úr sitt hvoru Reykjavíkurkjördæminu en Mörður þótti þingmenn Norðausturkjördæmis ekki bera nægjanlega virðingu fyrir umræðunum á þinginu í gær.

„Það er fróðlegt að verða var við að þingmenn skemmta sér yfir þessum tíðindum og ekki síst þingmenn þess kjördæmis sem um ræðir, þeir sitja á fremsta bekk og hafa í flimtingum þau tíðindi sem þarna eru flutt af Lagarfljóti. Það er athyglisvert, ekki síst fyrir kjósendur þeirra, að verða var við það.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.